Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nágrannar hafa áhyggjur og eldvarnaeftirlit kannar aðstæður
Horft yfir húsnæðið og umhverfi þess við Skálareykjaveg í Garði. VF-mynd: Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 4. nóvember 2022 kl. 08:06

Nágrannar hafa áhyggjur og eldvarnaeftirlit kannar aðstæður

Eldvarnaeftirlit Brunavarna Suðurnesja hefur til skoðunar frágang á lóð fyrirtækis við Skálareykjaveg í Garði. Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, staðfestir þetta í samtali við Víkurfréttir. 

Jón segir að við skoðun á aðstæðum hjá fyrirtækinu hafi einnig komið í ljós að fólk hafi gistiaðstöðu í húsnæðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Íbúar í nálægu íbúðahverfi hafa í samtali við Víkurfréttir lýst áhyggjum af aðstæðum við Skálareykjaveg. Þeir hafa áhyggjur af því að ef eldur verður laus við húsið sé þar mikill eldsmatur.

Nokkur fyrirtæki virðast hafa þar starfsemi. Fjöldi bíla er geymdur í gerði við húsið. Þá eru stórar stæður af plastkerjum og vörubrettum við húsið. Meðal annars eru kör og bretti þétt upp við húsið á baklóð en það er illa séð með tilliti til eldvarna. Þar er aðgengi fyrir slökkvilið einnig erfitt.

Þær upplýsingar hafa fengist frá Suðurnesjabæ að þar hafi framkvæmda- og skipulagsráð bæjarins tekið frágang á lóð fyrirtækisins til óformlegrar umræðu og skipulags- og byggingarfulltrúi Suðurnesjabæjar hefur verið beðinn um að skoða aðstæður.