Næsta hjúkrunarheimili verði í Suðurnesjabæ
Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar lýsir yfir ánægju með þá uppbyggingu hjúkrunarrýma sem er framundan við Nesvelli í Reykjanesbæ. Það er mikilvægt skref til að bregðast við þeirri uppsöfnuðu þörf sem er fyrir hjúkrunarrými á Suðurnesjum. Þetta segir í bókun bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar sem samþykkt var samhljóða í á fundi bæjarstjórnar í gær.
„Nú þarf að hefja undirbúning að uppbyggingu næstu rýma á svæðinu enda ljóst að þörfin eftir slíkri þjónustu mun fara vaxandi á næstu árum. Bæjarstjórn telur eðlilegt að næsta hjúkrunarheimili verði reist í Suðurnesjabæ sem er næst fjölmennasta sveitarfélagið á Suðurnesjum og er reiðubúin til að eiga viðræður við heilbrigðisráðherra til að stíga fyrstu skref í þá átt sem fyrst,“ segir í bókun bæjarstjórnar.
Magnúsi Stefánssyni bæjarstjóra var jafnframt falið að gera ráðherra grein fyrir þessari afstöðu Suðurnesjabæjar og óska eftir viðræðum til að ræða hana betur.