Nær fimmtíu óku of hratt
Fjörutíu og sex ökumenn hafa verið stöðvaðir á undanförnum dögum fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Flest áttu brotin sér stað á Reykjanesbraut, en einnig á Grindavíkurvegi og víðar.
Sá sem hraðast ók, nítján ára piltur, mældist á 142 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Þá reyndust tveir ökumenn ekki í bílbelti, þrír voru með filmur í fremri hliðarrúðum bifreiða sinna og einn talaði í síma án þess að nota handfrjálsan búnað.