Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nær 60 með fölsuð skilríki stöðvaðir
Fimmtudagur 18. október 2018 kl. 16:25

Nær 60 með fölsuð skilríki stöðvaðir

— Albanskir ríkisborgarar koma lang oftast við sögu

Á tímabilinu janúar til loka september 2018 hafa 57 einstaklingar verið stöðvaðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir að framvísa fölsuðum ferðaskilríkjum. Á sama tímabili árið 2017 hafði 61 einstaklingur komið við sögu í skilríkjamálum í flugstöðinni.
 
Árið 2018 er í flestum tilvikum um grunnfölsuð skjöl að ræða, eða í 29 tilfellum af 57. Skipting málanna 57 eftir tegund fölsunar er annars sem hér segir:
 
18 af 57 gerðu tilraun til að ferðast með ólögmætum hætti frá Íslandi til Kanada, 15 til Írlands, 14 til Bretlands, 1 til Bandaríkjanna og 9 höfðu Ísland sem ákvörðunarstað. Í 41 tilfelli voru einstaklingarnir sannanlega í millilendingu á Íslandi en í sumum tilvikum til viðbótar er brottfararstaður ekki þekktur.
 
Langflest málin koma upp vegna innan Schengen umferðar. Í einungis einu tilviki er einstaklingur með falsað skilríki skráður með komu frá utan Schengen ríki, þ.e. frá Írlandi.
 
Flest þeirra skilríkja sem hafa reynst fölsuð árið 2018 eru ítölsk eða grísk, samtals í 21 tilviki af 57. Albanskir ríkisborgarar koma lang oftast við sögu eða í 16 tilvikum af 57.
 
Einstaklingar án skilríkja
 
Þá má geta þess að einstaklingum sem reynast án skilríkja við afskipti lögreglu í flugstöðinni fer fjölgandi, eru þannig orðnir 70 á tímabilinu 1. janúar til loka september 2018 en voru allt árið 2017 samtals 91, 72 árið 2016, 21 árið 2015 og 14 árið 2014.
 
Frávísanir á ytri landamærum
 
Frávísunum á ytri landamærum í FLE fjölgar einnig verulega mikið. Frá 1. janúar til loka september 2018 hefur 103 einstaklingum verið frávísað á ytri landamærunum. Heildarfjöldi frávísaðra einstaklinga árið 2017 var 54, 26 árið 2016, 21 árið 2015 og 18 árið 2014. Frávísun er framkvæmd þegar einstaklingur uppfyllir ekki skilyrði til farar yfir landamærin, t.a.m. ef hann er áritunarskyldur og ekki með gilda áritun, hefur ekki gilt ferðaskilríki, hefur þegar dvalið 90 daga eða lengur á síðustu sex mánuðum eða er í endurkomubanni inn á Schengen svæðið.
 
Smellir í SIS og Interpol
 
Þá fjölgar smellum í Schengen upplýsingakerfinu og Interpol gagnagrunnunum einnig talsvert. Smellir geta varðað einstaklinga af ýmsum ástæðum eða skilríki þeirra sérstaklega. 161 smellur er skráður í SIS á tímabilinu 1. janúar til loka september 2018 en voru 123 allt árið 2017 sem var algjört metár þangað til. Fjöldi smella í Interpol er 85 á tímabilinu 1. janúar til loka september 2018 en var 93 árið 2017 sem var einnig algjört metár hvað slíka smelli varðar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024