Nældi í bæjarstjóra
Nýstofnuð samtök gegn ofbeldi í Reykjanesbæ (SGOR) seldu á Ljósanótt merki til fjáröflunar og vöktu athygli á starfi sínu.
Anna Albertsdóttir starfsmaður fjörheima er aðalhvatamaður að stofnun samtakanna en markmið þeirra er að berjast gegn ofbeldi í allri sinni mynd.
Í viðtali á heimasíðu Reykjanesbæjar segir Anna að hugmyndin að samtökunum hafi kviknað sl. vor.
„Þá fékk ég þessa flugu í höfuðið. Ég fór með unglingana í Fjörheimum í heimsókn til samtakanna Blátt áfram sem berjast gegn kynferðislegu ofbeldi og þá sá ég hvað ég gat gert. Ég hafði samband við Hafþór Birgisson forstöðumann Fjörheima og honum leist vel á hugmyndina. Í framhaldi voru samtökin stofnuð og sett á laggirnar nefnd sem hefur hist reglulega síðan“, segir Anna.
„Við fórum á hugarflug og veltum fyrir okkur hvað við gætum gert. Þá kom upp sú hugmynd að hanna merki til að selja og sáu systir mín og kærasti hennar um hönnun á merkjunum. Við afhentum líka dreifimiða með upplýsingum um félagið og baráttumál okkar.“
En til hvers nýtist ágóðinn af sölu merkjanna?
„Þá getum við loksins farið að skipuleggja dagskrá og gera eitthvað. Hugmyndin er að halda SKOR dag eða hátíð með tónleikum, fyrirlestrum og öðrum skemmtilegheitum. Við verðum í samstarfi við 88 Húsið en þar eigum við greiðan aðgang að aðstöðu.“
Samtökin hafa ekki fengið formlegan stofndag en að sögn Önnu byrjaði þetta allt 15. ágúst sl. þegar skipulagning hófst fyrir Ljósanótt.
„Við erum búin að hittast nokkrum sinnum í sumar og skipast á hugmyndum. Okkur fannst svo tilvalið að nýta ljósanótt til þess að kynna samtökin – svo fólk viti hver við erum.”
Merkin kosta kr. 100 og eru til í tveimur gerðum og ýmsum litum. Þeir sem hafa áhuga á að styrkja félagið og fjárfesta í merki geta haft samband við Önnu í Fjörheimum s. 820 7658.
Texti og myndir/reykjanesbaer.is