Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 7. mars 2001 kl. 10:38

Næg atvinna á Suðurnesjum

Atvinnuleysi hefur aldrei verið minna í Reykjanesbæ en sumarið 2000 þegar fjöldinn fór niður í 14 manns á Suðurnesjum, þ.e. 3 karlar og 11 konur. Svo lítið atvinnuleysi er algjört met á landsvísu og þó víðar væri leitað. Að sögn Ketils G. Jósefssonar, forstöðumaður Svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja er atvinnuleysi árstíðabundið hér um slóðir og má segja að frá nóvember og fram í febrúar fari fjöldinn vaxandi.
„Í nóvember síðastliðnum var fjöldi atvinnulausra um 76 manns (24 karlar og 52 konur) og fór síðan hækkandi allt fram í janúar í ár en þá var fjöldinn kominn upp í 143 (38 karlar og 105 konur). Síðan hefur orðið fækkun þannig að nú er heildarfjöldinn um 120 manns og fer fækkandi.
Með hækkandi sól hefst vertíðin og þá fer að dafna yfir atvinnulífinu um leið. Eins og málum er háttað núna virðist fiskast vel þegar gefur og loðna úti um allan sjó. Þegar líða tekur að vori og frost fer úr jörðu færist meira líf í byggingaframkvæmdir og hefur sú atvinnugrein verið í örri þróun eftir nokkra lægð. Einnig er uppgangur í verslun og hvers konar þjónustu“, segir Ketill um atvinnulífið á Suðurnesjum.
Svæðisvinnumiðlun Suðurnesja hefur flutt starfsemi sína frá Hafnargötu 57 yfir á aðra hæð í húsi verslunar 10/11 að Hafnargötu 55. Með breyttu fyrirkomulagi verður Vinnumiðlun undir stjórn Vinnumálastofnunar Íslands en var áður undir stjórn Reykjanesbæjar sem reynslusveitarfélag.
Starfsmenn Svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja eru þrír, Ketill G. Jósefsson forstöðumaður, Anna Björg Þormóðsdóttir ráðgjafi og Ragnheiður Gunnarsdóttir fulltrúi.
Atvinnuleitendur og atvinnurekendur hafa greiðan aðgang að skrifstofunni svo og þeir sem þurfa á þjónustu hennar að halda en hún er opin frá 8:30 - 15:30 alla virka daga.
Atvinnurekendur eru hvattir til að hafa samband við skrifstofuna ef um framboð á atvinnu er að ræða og skortur á starfskrafti segir til sín. Símanúmer skrifstofunnar er 421-8400 og faxnúmerið er 421-8405.
„Það er líka mikilvægt að vera í góðu sambandi við þá aðila sem koma að fræðslu og uppbyggingu á svæðinu þannig að aðilar vinni saman í stað þess að pukra hver í sínu horni. Að lokum vill undirritaður þakka bæjaryfirvöldum gott samstarf og velvild í okkar garð“, segir Ketill að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024