Náðu fjárhagslegum markmiðum 4-5 árum fyrr
- en í upphafi var lagt upp með
„Skuldaviðmiðið komið í 153,32% og við að ná fjárhagslegum markmiðum 4-5 árum fyrr en í upphafi var lagt upp með,“ segir Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Sandgerðis á fésbókinni í kvöld.
Ársreikningar Sandgerðisbæjar fyrir árið 2017 voru lagðir fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar í kvöld.
„Í fyrsta skipti í næstum áratug er rekstrarniðurstaðan jákvæð, skuldaviðmiðið komið í 153,32% og við að ná fjárhagslegum markmiðum 4-5 árum fyrr en í upphafi var lagt upp með. Ég held að maður geti ekki annað en verið stoltur af því að sveitarfélagið sé á þessum stað sama hvort maður er bæjarfulltrúi, starfsmaður eða íbúi í Sandgerði,“ skrifar Ólafur Þór.
Guðjón Þorgils Kristjánsson fundarritari setti saman smá vísukorn í tilefni dagsins svona eins og hann gerir oft. „Þessi orð fanga nú bara stemninguna nokkuð vel,“ segir Ólafur Þór.
Ársreikningsuppgjör og allt er lagt saman.
Erum nú risin úr örbirgðar skolti.
Bjart er hjá öllum og býsna er gaman
og bæjarstjórn að rifan úr stolti.