Myrkur og þögn í kvikmyndaverinu á Ásbrú
Nú er unnið að krafti við að umbreyta byggingu 501 við Grænásbraut á Ásbrú í kvikmyndaver. Byggingin er 2300 fermetrar að gólffleti með með allt að 13 metra lofthæð. Undanfarnar vikur hefur verið unnið að því að klæða og hljóðeinangra tvo útveggi í húsinu. Þá hefur gríðarlegt magn af svartri málningu verið notað til að mála veggi og loft en galdurinn við kvikmyndaver er að það sé laust við alla utanaðkomandi birtu og sé vel hljóðeinangrað. Nú eru rafvirkjar að störfum í byggingunni við að setja upp lagnakerfi ýmsikonar og innstungur af öllum stærðum og gerðum.
Það er fyrirtækið Atlantic Studios sem hefur tekið byggingu 501 á leigu af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar en byggingin hentar vel til kvikmyndagerðar og hefur þegar verið notuð í slík verkefni.
Veik staða íslensku krónunnar getur komið sér vel fyrir erlenda framleiðendur kvikmynda sem sjá fjölmörg tækifæri til kvikmyndagerðar á Íslandi . Þá hefur iðnaðarráðuneytið stutt vel við bakið á innflutningi kvikmyndatökuverkefna með endurgreiðslu á sköttum en 20% af framleiðslukostnaði sem fellur til á Íslandi er endurgreiddur.
Hallur Helgason hjá Atlantic Studios sagði í samtali við Víkurfréttir í sumar að fyrirtækið væri ekki sjálft í kvikmyndaframleiðslu, heldur hefði það verkefni að útvega aðstöðu til kvikmyndagerðar. Þar væri galdurinn að vera með rúmgott húsnæði þar sem getur verið algjört myrkur og hljóðeinangrun. Þetta er vel mögulegt í nýja kvikmyndaverinu á Ásbrú, sem nú hefur verið myrkvað og hljóðeinangrað.??Hallur var varkár þegar spurt er um hvort stór kvikmyndatökuverkefni séu á leið til landsins. Hann staðfesti þó að margir hafi sýnt aðstöðunni hér áhuga og að unnið sé að því að koma verkefnum til landsins.??Stórt kvikmyndaverkefni þýðir miklar tekjur fyrir samfélagið og sérstaklega í næsta nágrenni tökustaðar. Suðurnesjamenn þekkja það vel síðan stórmyndin Flags of our Father var tekin á Reykjanesi. Aðilar sem geta átt von á viðskiptum í tengslum við umsvif kvikmyndavers eru hótel og veitingastaðir, bílaleigur og þjónustuaðilar ýmiskonar.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í og við Atlantic Studios á Ásbrú í dag.
Á efstu myndinni sést inn í hluta kvikmyndaversins. Þarna eiga án efa stórmyndir hvíta tjaldsins eftir að vera til. Á neðri myndunum má sjá húsið sem hýsir kvikmyndaver Atlantic Studios sem nú er auðkennt með rauðri rönd.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson