Myndskeið: Gígbarmurinn hrundi og hraunrennslið tók nýja stefnu
Vesturhlið gígsins við Litla-Hrút hrundi í nótt, við það varð mikið hraunflóð sem rann til vesturs og virðist sem rennslið í hraunánna til suðurs hafi rofnað.
Á Facebook-síðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands er greint frá þessu og þar segir jafnframt: „Gígskálinn virðist hafa gefið sig eftir að verulega hafði hækkað í hrauntjörninni inn í honum. Gosórói hafði áður aukist í um fimm klukkustundir. Eftir hrunið hefur gosóróinn hinsvegar lækkað umtalsvert.
Samhliða hruninn hefur orðið mikil breyting á hraunrennslinu. Sýnilegt rennsli er nú alfarið til vesturs í gegnum rofið í gígnum. Þar hefur ný hrauná tekið stefnuna til suðurs, vestan við farveginn sem hefur verið virkur frá upphafi eldgossins. Líklegt er að gamli farvegurinn stíflist nú af storknuðu hrauni og að hraunið þurfi að byggja sér upp nýja farvegi til að viðhalda framgangi hraunjaðarsins til suðurs.“
Hópurinn bendir á að hrun gígskálarinnar í nótt hafi gerst mjög skyndilega og ljóst er að stórhætta hefði getað skapast ef fólk hefði verið í nágrenni gígsins. Myndir hafa náðst undanfarna daga af fólki alveg upp við rætur hans og ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum hefði fólk orðið í vegi fyrir hraunflóðinu í nótt.
Myndbandið er unnið úr vefmyndavél RÚV og hraði þess þrefaldaður fyrir framsetningu (til að geta horft á myndskeiðið þarf að vera innskráður á Facebook).