Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Myndir: Halldór og Haraldur við björgunarstörf á Haiti
Fimmtudagur 14. janúar 2010 kl. 16:16

Myndir: Halldór og Haraldur við björgunarstörf á Haiti

Tveir björgunarsveitarmenn úr Reykjanesbæ eru við björgunarstörf þessa stundina á hamfarasvæðinu í Port-au-Prince á Haiti. Þetta eru þeir Haraldur Haraldsson og Halldór Halldórsson, en þeir hafa undirgengist stífa þjálfun sem rústabjörgunarmenn og hlotið alþjóðlega vottun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Samtals hafa sjö meðlimir Björgunarsveitarinnar Suðurnes hlotið slíka vottun en þeir hafa þó ekki allir fengið þær bólusetningar sem krafist er að menn hafi á hamfarasvæði eins og Haiti.


Kári Viðar Rúnarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes, var í gervihnattasambandi við þá Halldór og Harald í hádeginu í dag að íslenskum tíma eða snemma morguns að staðartíma á Haiti. Þeir félagar höfðu þá verið við björgunarstörf í hótelbyggingu en voru að hefja leitar- og björgunarstörf í fjögurra hæða húsi verslunarmiðstöðvarinnar Caribbean Market. Kári hafði bara góðar fréttir af sínum mönnum. Þeir væru að vonum þreyttir, enda hafi strax tekið við mikil vinna þegar sveitin kom til flugvallarins í Port-au-Prince. Þar hefur sveitin komið sér upp búðum, enda var enginn annar staður inni í borginni talinn nógu öruggur fyrir búðirnar.


Tveir hópar björgunarmanna eru við leit og björgun í rústum. Þá vinnur sérstakur búðahópur hörðum höndum við að reisa búðir á flugvallasvæðinu og verða þær sameiginlegar með belgískri björgunarsveit. Einnig er unnið að því að koma fjarskiptum og öðrum búnaði í gang. Skortur á eldsneyti hefur skapað einhver vandkvæði en búið er að leysa þau mál. Önnur aðföng hafa reynst erfiðari, t.d. vantar sveitina timbur til stífinga, gas og súrefni.


Auk íslensku sveitarinnar hefur sú bandaríska einnig hafið eiginleg björgunarstörf á skaðasvæðinu en enn sem komið er eru aðeins þrjár aðrar sveitir komnar á staðinn, þ.e. sú bandaríska, belgíska og sveit frá Kína.


Myndirnar tók Kristinn Ólafsson / Slysavarnafélaginu Landsbjörg.