„Myndbandið segir bara hálfa söguna“
-Myndavélar og öryggisgæsla verða nú í almenningsvögnum Reykjanesbæjar
„Það er bara hálf sagan sögð í þessu myndbandi. Forsagan af þessu er hráki framan í bílstjórann og meirihlutinn af gosdrykknum yfir hann, ásamt fúkyrðum,“ segir Sævar Baldursson, eigandi Bus4U, almenningsvagnanna í Reykjanesbæ, um myndband af strætóbílstjóra sem sést hella drykk yfir farþega vagnsins og hefur farið eins og eldur um sinu síðustu daga á samfélagsmiðlum.
Lögreglan var kölluð á vettvang þegar umrætt atvik átti sér stað, en í kjölfarið lýsti hún eftir vitnum. Í samtali við Víkurfréttir, í kjölfar atviksins, sagðist strætóbílstjórinn hafa verið bitinn í höfuðið af drengnum, sem samkvæmt heimildum Víkurfrétta er fjórtán ára gamall.
Hluti atviksins var tekinn upp á myndband, en eins og áður kemur fram, segir Sævar myndbandið einungis segja hálfa söguna. „Bílstjórarnir eru allir orðnir langþreyttir á ástandinu og upp úr sauð hjá henni, þannig að svo fór sem fór.“
Lögreglan hefur í ófá skipti síðustu mánuði verið kölluð til vegna uppákoma í strætó, farþegar hangi oft í strætó og rúnti marga hringi, gangi illa um vagnana og einhverjir þeirra séu nú farnir að beita ofbeldi. „Við viljum tryggja öryggi almennings og bílstjóranna okkar og fyrsti liðurinn var framkvæmdur í dag með því að setja öryggismyndavélar í fyrsta vagninn. Við munum einnig vera með öryggisgæslu á vissum tímum og senda skýr skilaboð um það að almenningsvagnar Reykjanesbæjar séu ekki félagsmiðstöðvar.“