Myndavélavöktun skilar árangri
– ekkert innbrot verið skráð í Vogunum af lögreglu eftir uppsetningu myndavélar
Fyrir nokkrum misserum var ákveðið að ráðast í tilraunaverkefni með Securitas um uppsetningu öryggismyndavélar við innakstur að þéttbýlinu í Vogum. Að fenginni reynslu var ákveðið að ráðast í kaup á slíkum búnaði, nú hefur verið gengið frá uppsetningu hans og tengingum.
Um búnað sem þennan gilda strangar reglur, m.a. þarf leyfi frá Persónuvernd til uppsetningarinnar. Myndavélarnar geyma upptökur af umferð um veginn inn í bæinn í tiltekinn tíma, en einungis er heimilt að nota þær upplýsingar af lögreglu og í löggæslutilgangi.
Frá því öryggismyndavélin var fyrst sett upp hefur ekkert innbrot verið skráð í Vogunum af lögreglunni, svo vonandi hefur þessi búnaður tilætlaðan fælingarmátt, segir í frétt frá Sveitarfélaginu Vogum.