Myndatökumaður VF í návígi við risastóran hákarl
Hópur beinhákarla er nú skammt undan landi í Keflavík og virðist vera í miklu æti. Fyrsta hákarlsins varð vart í gærkvöldi en í dag voru þeir orðnir fjórir. Ekki er algengt að sjá beinhákarla á þessum slóðum en þeir halda sig frekar fyrir sunnan landið.
Myndatökumaður Víkurfrétta, Hilmar Bragi Bárðarson, fór út að hákarlinum í gærkvöldi en dýrið var talið 7-8 metra langt og því um 5 tonn af þyngd. Einnig voru með í ferðinni Davíð Sigurþórsson með neðansjávarmyndavél og Tómas Knútsson, kenndur við Bláa herinn. Videomyndir úr miklu návígi við hákarlinn náðust í ferðinni. Þær má m.a. nálgast hér.
Meðallengd fullorðinna beinhákarla er um 6,7 til 8,8 metrar en þeir stærstu geta náð allt að 12 metra lengd.
Beinhákarlinn lifir á örsmáu dýrasvifi. Beinhákarlinn treystir algjörlega á steymi sjós inn í kjaftinn á sér til að sía úr fæðu.
Beinhákarlar halda sig á grunnsævi og oft má sjá bakuggann og trjónuna þar sem hann syndir hægt og letilega um sjóinn.
Beinhákarlinn á sér afar fáa óvini, fyrir utan manninn.
Beinhákarlinn er í útrýmingarhættu og nýtur víða friðunar. Beinhákarlinn var afar dýrmætur áður fyrr vegna olíunnar sem gríðarstór lifrin gaf af sér og einnig vegna kjötsins og ugganna sem eru rándýr matvara á asískum matvörumarkaði, segir á vísindavef Háskóla Íslands.
mms://veftv.vf.is/Hakarlinn_net.wmv