Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Myndarlegur hópur útskrifaður frá FS
Föstudagur 27. desember 2002 kl. 17:27

Myndarlegur hópur útskrifaður frá FS

Skólaslit haustannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram laugardaginn 21. desember. Að þessu sinni útskrifuðust 46 nemendur; 39 stúdentar, 6 iðnnemar og einn meistari í rafvirkjun. Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur.Ólafía Sigurjónsdóttir fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í dönsku, ensku, þýsku og fyrir árangur sinn í líffræði og efnafræði. Auk þess fékk Ólafía viðurkenningu frá Eddu - miðlun og útgáfu fyrir góðan árangur í íslensku. Sigurður Guðjón Gíslason fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í spænsku og í stærðfræði nemanda sem ekki er á náttúrufræðibraut. Ellen Ósk Kristjánsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í þýsku og Júlía Jónsdóttir fyrir spænsku. Ingibjörg Ragnarsdóttir fékk viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan árangur í myndmennt, Sigrún Jónatansdóttir fyrir sálfræði og Valdís Ösp Árnadóttir fyrir félagsfræði. Arnþór Sigurðsson hlaut viðurkenningu frá Olíusamlagi Keflavíkur og nágrennis fyrir bestan árangur til fyrsta stigs vélstjóra og Húsasmiðjan veitti Maríu Svavarsdóttur viðurkenningu fyrir góðan árangur í húsasmíði. Þá fékk Oddný J.B. Mattadóttir viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda öldungadeildar.

Að venju veitti Sparisjóðurinn í Keflavík nemendum skólans viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og afhenti Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri verðlaunin. Að þessu sinni hlaut Ólafía Sigurjónsdóttir viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og hún fékk auk þess viðurkenningar fyrir góðan árangur í íslensku, erlendum tungumálum og í stærðfræði og raungreinum. Valdís Ösp Árnadóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í samfélagsgreinum og María Svavarsdóttir fyrir góðan árangur í tæknigreinum.

Að lokum veitti Ólafur Jón Arnbjörnsson skólameistari tignarmerki skólans en þau eru veitt þeim sem hafa unnið skólanum verulegt gagn og stuðlað að framgangi hans. Að þessu sinni hlutu kennararnir Magnús Óskar Ingvarsson, Sturlaugur Ólafsson og Ægir Sigurðsson gullmerki FS en þeir hafa allir kennt við skólann í yfir 25 ár. Þá kvaddi skólameistari Cornelíu Ingólfsdóttur bókavörð fyrir hönd skólans en hún lét af störfum á önninni eftir að hafa starfað við skólann um árabil.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024