Myndarlegt torg við íþróttamiðstöð
Nú er unnið að því að útbúa myndarlegt torg við aðalinngang nýrrar íþróttamiðstöðvar Grindvíkinga. Nýja íþróttamiðstöðin er anddyri að íþróttahúsi- og sundlaug Grindavíkur og þar er einnig að finna aðstöðu fyrir félagsstarf Ungmennafélags Grindavíkur og Kvenfélags Grindavíkur, en miðstöðin fékk nýlega nafnið Gjáin.
Torgið við íþróttamiðstöðina er myndarlegt en það er hellulagt og þar eru eyjur sem eru bæði tyrftar og klæddar viðarklæðningu og má nota sem svið. Á torginu er m.a. festing fyrir jólatré, þannig að Grindvíkingar geta haldið jólatrésskemmtanir þar og án efa verður staðurinn vinsæll fyrir útiskemmtanir eins og á 17. júní. Það eru fyrirtækin Grjótgarðar og Hjalti Guðmundsson ehf. sem vinna að torginu.