Myndað dag og nótt í Garðinum
Það fer ekki framhjá íbúum í Garði að þar er verið að taka upp kvikmynd. Kvikmyndagerðarmenn eru að störfum bæði dag og nótt við upptökur á myndinni Djúpið eftir Baltasar Kormák. Upptökur fara fram bæði við höfnina í Garði og einnig fara tökur fram í íbúðarhúsi við aðalgötu bæjarins.
Við höfnina er verið að taka upp sjóslys og meðal annars var báti siglt í strand í höfninni og einnig hafa sjósundatriði verið tekin þar upp. Á næstu dögum verður farið með bátinn í höfnina í Helguvík þar sem honum verið hvolft og síðan sökkt.
Myndin var tekin þegar unnið var við leikmyndina í höfninni í Garði. Notast var við öflugan krana til að flytja fólk og búnað út í bátinn sem var úti í miðri höfninni.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson