Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mustad Autoline opnar starfsstöð í Mekka línuveiða í Grindavík
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 20. nóvember 2020 kl. 07:27

Mustad Autoline opnar starfsstöð í Mekka línuveiða í Grindavík

Mustad Autoline framleiðir beitningarvélar sem eru í öllum línubátum á Íslandi sem hafa beitningarvél. Fyrirtækið er norskt og rekur sögu sína allt aftur til ársins 1832 og er þekkt í þessum bransa. Fram til þessa hefur Mustad verið með umboð hjá öðrum fyrirtækjum hér á landi en hafa núna opnað í eigin nafni.

Framleiðandinn hefur opnað Íslandsskrifstofu sína í Grindavík undir nafninu Mustad Autoline en það er Sigurður Óli Þórleifsson sem fer fyrir fyrirtækinu hér á landi. Fyrirtækið er við Grindavíkurhöfn í húsnæði þar sem áður var netaverkstæði, við hlið hins vinsæla kaffihúss, Bryggjunnar. Sigurður Óli hefur verið viðloðandi Mustad Autoline síðustu ár og var síðast hjá Ísfelli sem var umboðsaðili hérlendis fyrir vélarnar. Nú er stefna Mustad Autoline að vera með sjálfstæðar einingar á sterkum markaðssvæðum. Starfsstöð fyrirtækisins í Grindavík mun sinna Íslandi og einnig Grænlandi, þar sem mikill uppgangur er í línuveiðum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Hugmyndin er að þjónusta áfram og betur línuskipaflotann á Íslandi og fyrirtækið staðsetur sig í Grindavík því Suðurnes og sérstaklega Grindavík eru Mekka línuflotans á landinu,“ segir Sigurður Óli. Stórar útgerðir í Grindavík sem gera út línubáta eru m.a. Vísir, Þorbjörn, Einhamar, Stakkavík og Besa. Í Sandgerði eru það svo Nesfisksbátar og bátar frá Stellar Seafood, svo dæmi séu tekin.

Hjá Mustad Autoline munu starfa þrír starfsmenn og þá er fyrirtækið með tvo öfluga verktaka sem fara um landið og sinna viðhaldi á beitningarvélum. Þá bendir Sigurður Óli á að alltaf sé verið að smíða nýja báta í bátasmiðjunum og verið að endurnýja með nýjum búnaði frá Mustad Autoline.

Mustad-vélarnar eru Rollsinn þegar kemur að beitningarvélum. Þær eru endingargóðar og hafa hátt endursöluverð. „Það er líka slegist um notaðar vélar, því það eru mikil gæði í þessum búnaði,“ segir Sigurður Óli.

Beitningarvélarnar eru til í nokkrum stærðarflokkum og henta frá stærstu skipum niður í minnstu báta. Beitningarvélar eru ekki á lager, heldur smíðaðar fyrir hvern bát og sniðnar eftir þörfum viðskiptavinarins, hvort sem þær eru stjórnborðs- eða bakborðsmegin. Þá er fyrirtækið í raun með allt til línuveiða, hvort sem það er veiðarfæri, fatnaður o.fl. Þá eru að sjálfsögðu í boði hinir þekktu Mustad-krókar. Hjá Mustad Autoline í Grindavík verður svo góður varahlutalager en stefnan er að menn séu komnir með varahlut innan sólarhrings frá pöntun.