Munum ekki taka þátt í óábyrgri loforða pólitík í þessari kosningabaráttu
- Páll Valur Björnsson, oddviti Samfylkingarinnar í Grindavík
Kosið er til bæjarstjórnar í Grindavík á morgun, laugardaginn 26. maí. Víkurfréttir lögðu tvær spurningar fyrir oddvita allra framboðslista í Grindavík.
Hver eru stærstu kosningamálin í þínu sveitarfélagi fyrir þessar kosningar?
Stærstu málin hér eru dagvistunarmál og þá helst þau að brúa bilið frá fæðingarorlofi og fram að hefðbundnum leikskóla. Húsnæðismál eru síðan mál sem brenna mjög á íbúum enda er þörf á átaki í því að tryggja öllum varanlegt og fullnægjandi húsnæði. Síðan eru samgöngumálin mjög áberandi í þessari kosningabaráttu að gefnu tilefni. Velferðar og skólamál eru síðan málefni sem eru stór í okkar huga en fá því miður ekki mikið vægi vegna þeirra mála sem á undan er getið. Annars eru allir málflokkar sem viðkoma daglegu lífi bæjarbúa allt frá dagvistunarmálum og upp í það að tryggja eldri borgurum okkar áhyggjulaust ævikvöld undir í sveitarstjórnarkosningum á hverjum tíma.
Hver eru helstu málefni ykkar framboðs, að þessu sinni?
Við í Samfylkingunni munum ekki taka þátt í óábyrgri loforða pólitík í þessari kosningabaráttu en viljum marka nýja og raunhæfa stefnu til framtíðar fyrir okkar góða bæ. Metnaðarfulla stefnu á öllum sviðum sem er unnin í góðri sátt við íbúa sem og stjórnendur og sérfræðinga.
Það sem við leggjum helst áherslu á og viljum er:
Bæ sem er framúrskarandi fyrir börn og barnafjölskyldur
- Brúa bilið og tryggja faglega þjónustu fyrir börn og barnafjölskyldur um leið og fæðingarorlofi lýkur
- Menntastofnanir í fremstu röð
- Aukið fjármagn til forvarnarmála með áherslu á geðheilsu og vellíðan ungs fólks
- Öflugt atvinnulíf með áherslu á nýsköpun
- Langtímaáætlun í uppbyggingu íþróttamannvirkja
- Framtíðarstefnumótun á sviði ferðamála
- Tryggja eldri borgurum örugga félagsaðstöðu