Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Munu verja störf og grundvallarþjónustu
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Fimmtudagur 6. nóvember 2014 kl. 14:35

Munu verja störf og grundvallarþjónustu

Ákveðið á bæjarráðsfundi í morgun að hækka útsvar og fasteignagjöld.

Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar í morgun var ákveðið að fara í ákveðnar aðgerðir í þessum tilgangi og m.a. draga úr yfirvinnu og aksturskostnaði starfsmanna eins og kostur er. Þannig verði opnunartímar, vaktakerfi og verklag einstakra stofnana, endurskoðaðir. Einnig var ákveðið að hækka útsvar frá og með 1. janúar 2015 um 0,53%, fer úr 14,52% í 15,05%. Þá mun fasteignaskattur A-stofns hækka úr 0,3% í 0,5% frá sama tíma. Þessar aðerðir eiga að skila annars vegar 250 milljóna króna lækkun rekstrarkostnaðar og samtals tekjuaukningu bæjarsjóðs um 455 milljónir króna. 



Launakostnaður langstærsti liðurinn

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Hinn mikli fjárhagsvandi sem Reykjanesbær stendur frammi fyrir hefur ekki farið framhjá neinum. Ljóst er að grípa þarf til víðtækra aðgerða. Launakostnaður í sinni víðtækustu mynd er langstærsti einstaki kostnaðarliður sveitarfélagsins, eða um 44% af útgjöldum þess. Því verður ekki hjá því komist að skoða þann lið sérstaklega þegar leitað er leiða til að koma fjármálum Reykjanesbæjar í viðunandi horf,“ segir í Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í pistli á vef Reykjanebæjar. Þar segir ennfremur að einhverjir hafi hvatt til þess að fólki verði sagt upp störfum í sparnaðarskyni en bæjarstjórn sé einhuga um að verja störf og standa vörð um grundvallarþjónustuna. Því þurfi að leita annarra leiða.

Yfirvinna og vaktir endurskoðaðar
Í tilkynningu frá bæjarstjórn segir að á 1001. fundi bæjarráðs nú í morgun hafi verið ákveðið að fara í ákveðnar aðgerðir í þessum tilgangi og m.a. draga úr yfirvinnu og aksturskostnaði starfsmanna eins og kostur er. Þannig verði opnunartímar, vaktakerfi og verklag einstakra stofnana, endurskoðaðir. Þá verði yfirvinna einungis heimil með samþykki næsta yfirmanns og öllum ákvæðum um fasta yfirvinnu í ráðningarsamningum sagt upp. Fastlaunasamningar og samningar sem feli í sér ákvæði um „önnur laun“ verði einnig endurskoðaðir. Loks verði ákvæðum um fasta bifreiðastyrki sagt upp en greitt verði fyrir akstur samkvæmt akstursdagsbók, að fengnu samþykki næsta yfirmanns.

250 milljóna lækkun rekstrarkostnaðar
Kjartan Már segir að vonast sé til að þessar aðgerðir skili um 250 milljóna króna lækkun rekstrarkostnaðar og verði liður í því að koma Reykjanesbæ yfir erfiðasta hjallann fyrst um sinn. „Þessi leið var valin eftir vandlega yfirferð annarra valmöguleika. Á meðal þeirra var að hækka eingöngu annan þessara skattstofna. Með því að fara þessa blönduðu leið dreifast byrðarnar á fleiri herðar, þ.e. bæði útsvarsgreiðendur og alla eigendur íbúðarhúsnæðis í A-stofni, þar með taldir ýmsir lögaðilar sem eiga íbúðarhúsnæði í Reykjanesbæ s.s. leigufélög, bankar, Íbúðalánasjóður og fleiri. 
Gjaldstofnar fasteigna í B-stofni (opinberar byggingar) og C-stofni (atvinnuhúsnæði) eru þegar fullnýttir.“

Útsvar og fasteignagjöld hækka
Að mati bæjarstjórnar felur þessi blandaða leið í sér að útsvar hækkar frá og með 1. janúar 2015 um 0,53%, fer úr 14,52% í 15,05%, sem er hlutfallshækkun upp á 3,62%. Sú hækkun bætir fjárhagsstöðu bæjarssjóðs um 200 milljónir króna. Jafnframt hækkar fasteignaskattur A-stofns úr 0,3% í 0,5% frá sama tíma. Það leiðir til tekjuaukningar fyrir bæjarsjóð um 255 milljónir króna. „Samtals gæti því tekjuaukning bæjarsjóðs orðið 455 milljónir króna. 

Samhliða þessum aðgerðum er unnið að tillögum um hagræðingu í rekstri sem ætlað er að skila um 500 milljóna króna lækkun rekstrarkostnaðar Reykjanesbæjar. Þær tillögur munu líta dagsins ljós í fjárhagsáætlunum stofnana fyrir árið 2015 sem lagðar verða fyrir bæjarstjórn í desember,“ segir Kjartan Már.