Munu lagfæra Grindavíkurveg sem fyrst
Hættulegur vegkafli í forgangi hjá samgönguráðherra
Samgönguráðherra hefur falið Vegagerðinni að lagfæra hættulegan kafla á Grindavíkurvegi þar sem alvarleg slys hafa orðið. Mislæg gatnamót verða líka gerð á varasömum kafla á Reykjanesbraut við Krýsuvíkurveg. Þetta kom fram í fréttum RÚV í gær.
Framlög til vegamála voru aukin um fjóra og hálfan milljarð króna í nýjum fjárlögum. Það stendur m.a. til að gera betrumbætur á vegarkafla á Grindavíkurvegi þar sem orðið hafa mjög alvarleg slys. Nú síðast þann 12. janúar þegar átján ára stúlka beið bana og kínversk kona sem var í hinum bílnum slasaðist alvarlega.
„Við óskuðum eftir því við Vegagerðina að sá kafli yrði skoðaður alveg sérstaklega og við munum fá tillögur þar að lútandi, hvernig hægt verður að draga þar úr slysatíðni. Það hafa orðið alvarleg slys á mjög takmörkuðum kafla á Grindavíkurvegi og þessi dæmi höfum við annars staðar frá og það er í einmitt í þessa kafla sem við viljum forgangsraða því fjármagni sem við höfum til ráðstöfunar,“ segir Jón Gunnarsson samgönguráðherra í samtali við RÚV.