Atnorth
Atnorth

Fréttir

Munu íbúar í Reykjanesbæ kjósa um ýmis mál í íbúakosningum?
Föstudagur 15. apríl 2011 kl. 09:31

Munu íbúar í Reykjanesbæ kjósa um ýmis mál í íbúakosningum?

Tillaga Framsóknarmanna um gerð reglna um íbúakosningar í Reykjanesbæ var til umræðu á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku. Þá var einnig kynnt tillaga um siðareglur fyrir bæjarfulltrúa og stjórnendur hjá bæjarfélaginu. Kristinn Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins lagði tillögurnar nú fram í annað sinn en þeim var vísað til bæjarráðs í fyrra skiptið án þess að nokkuð gerðist í afgreiðslu þeirra.

Bílakjarninn
Bílakjarninn


Reglur þessar fjalla um atkvæðagreiðslur íbúa um bæjarmálefni í Reykjanesbæ sem efnt er til utan almennra bæjarstjórnarkosninga. Í reglunum er gert ráð fyrir því að atkvæðagreiðsla geti farið fram um öll málefni á verksviði bæjarstjórnar nema þau sem lög ákveða sérstaklega að bæjarstjórn skuli fara með eins og gerð fjárhagsáætlana og breytinga á stjórnsýslu bæjarins. Ekki verði hægt að efna til atkvæðagreiðslu um gjaldskrá, álagningu opinberra gjalda eða annað af því tagi.
Í tillögunni sem lögð var fram á bæjarstjórnarfundinum er lagt til að hægt verði að efna til íbúakosninga ef bæjarstjórn ákveði það eða ekki færri en 30% atkvæðisbærra bæjarbúa óski eftir þvi með undirskrift áskorunar til bæjarstjórnar.
Rætt er um að svona kosningar fari fram rafrænt og standi ekki lengur en 3 daga í senn. Niðurstöður teljist bindandi ef 2/3 kosningabærra íbúa tekur þátt í kosningunni og meira en helmingur greiddra atkvæða fellur með ákveðnu sjónarmiði.
Nokkrar umærður urðu um tillöguna en að lokum samþykkt að tilnefna aðila frá meiri- og minnihluta í nefnd til að fjalla um málið og koma með niðurstöðu innan tíðar.
Í tillögu að gerð siðareglna fyrir bæjarfulltrúa og stjórnendur bæjarfélagsins er m.a. tiltekið að þeir skuli tilkynna um allar gjafir sem þeir þiggja vegna stöðu eða starfa sinna fyrir bæjarfélagið og að óheimilt sé að þiggja gjafir, fríðindi eða hlunnindi frá viðskiptamönnum sem þeim sem leita eftir þjónustu Reykjanesbæjar, ef líta má á það sem endurgreiðslu fyrir greiða eða sérstaka þjónustu. Þá skuli bæjarfulltrúar og nefndarmenn forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum.

Mynd: Kristinn Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ lagði fram tillögu um íbúakosningu og siðareglur fyrir bæjarfulltrúa og stjórnendur Reykjaesbæjar.