Munu beita sér fyrir skyndifriðun Sundhallar
„Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hefur samþykkt breytingu á deiliskipulagi vegna Sundhallar Keflavíkur og þar með heimilað niðurrif á þessu sögufræga húsi sem teiknað er af Guðjóni Samúelssyni. Skömmin er þeirra,“ skrifar Ragnheiður Elín Árnadóttir, sem barist hefur fyrir því að gamla Sundhöllin í Keflavík fái að standa.
Í skrifum sínum er hún að bregðast við tíðindum af bæjarstjórnarfundi sem nú stendur yfir í Reykjanesbæ, þar sem meirihluti bæjarstjórnar og fulltrúi Framsóknarflokks samþykkti breytingu á deiliskipulagi fyrir Framnesveg 9-11.
„Þetta eru mér gríðarleg vonbrigði. Bæjaryfirvöld hafa brugðist í þessu máli og það var hreinlega ótrúlegt að hlusta á formann bæjarráðs og forseta bæjarstjórnar í þessari umræðu. Ég mun fara ítarlega yfir það síðar en forherðing er það orð í sem mér dettur fyrst í hug.
En málinu er hvergi nærri lokið. Við munum leita allra leiða til þess að koma þessu máli farsællega í höfn. Það eru skýrir ágallar á afgreiðslu málsins vegna vanhæfis nefndarmanns í umhverfis- og skipulagsráði sem skera þarf úr um hjá viðeignandi aðilum, og svo munum við að sjálfsögðu beita okkur fyrir skyndifriðun hússins,“ skrifar Ragnheiður í hópinn Björgum Sundhöll Keflavíkur á fésbókinni.