Munaði litlu að eldurinn bærist í húsþak
Um kl. 23:00 í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um að eldur væri laus í númerslausri bifreið við Bakkastíg í Reykjanesbæ. Lögregla og slökkvilið fóru á staðinn. Bifreiðin var þá alelda en greiðlega gekk að slökkva eldinn.
Bifreiðin stóð upp við húsvegg og mátti litlu muna að eldurinn næði að festa sig í þaki nærliggjandi húss en slökkviliðsmenn náðu að hindra að illa færi. Grunur leikur á að um íkveikju hafi verið að ræða en borið hefur á því að kveikt hafi verið í bílhræjum í Reykjanesbæ að undanförnu.
Málið er í rannsókn.
Mynd: Frá bílbruna í Njarðvík fyrr í vetur. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson