Mun rólegra yfir Krýsuvíkursvæðinu
Mjög hefur dregið úr jarðskjálftum á Reykjanesskaganum frá miðnætti. Mælst hafa 30 skjálftar sem eru M1,0 eða stærri og þar af eru sjö skjálftar sem eru M2,0 eða stærri. Síðasti jarðskjálfti sem mældist yfir þremur að stærð var í gærkvöldi. Hann varð við Fagradalsfjall kl. 19:34 og mældist M3,1.
Ekki er hægt að útiloka annan stóran skjálfta og er því enn aukin hætta á grjóthruni í bröttum hlíðum á Reykjanesskaganum og einnig í öðrum fjallshlíðum á suðvesturhorninu.