Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mun Ragnheiður Elín leysa leiðtogakrísu sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi?
Þriðjudagur 17. febrúar 2009 kl. 09:51

Mun Ragnheiður Elín leysa leiðtogakrísu sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi?

- stefnir í spennandi prófkjörsbaráttu hjá sjálfstæðismönnum í Suðurkjördæmi

Mikil spenna er þessa dagana meðal sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi fyrir prófkjöri sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir laugardaginn 14. mars n.k. Mikið hefur verið rætt um mikilvægi endurnýjunnar á lista flokksins í kjördæminu og virðist hinn almenni sjálfstæðismaður vera þeirrar skoðunnar.


Árnarnir tveir valtir í sessi
Vitað er að Árnarnir tveir, Mathiesen og Johnsen hyggjast sækjast eftir því að leiða framboðslistann, en óvíst er hvort þeir njóti sama stuðnings og þeir gerðu í prófkjöri flokksins haustið 2006, þar sem um 6000 manns greiddu atvæði, enda krafan um breytingar mjög hávær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Kjartan Ólafsson, alþingismaður hefur verið að meta stöðu sína en ályktun sjálfstæðismanna á Selfossi, hans heimabæ, þar sem skorað var á nýja frambjóðendur að bjóða sig fram og að þörf væri á endurnýjun í forystu og þingmannasveit flokksins í kjördæminu, hefur haft sitt að segja. Er talið líklegt að Kjartan ætli að halda sig við annað sætið og gefa nýjum frambjóðanda tækifæri á að leiða listann.


Nafn Eyþórs Arnalds hefur einnig verið í umræðunni um leiðtogasætið. Skiptar skoðanir virðast vera um hvort þessi fyrrum hljómsveitameðlimur og oddviti í Árborg sé rétti maðurinn til að leiða framboðslistann.


Ragnheiður Elín kemur sterk inn
Eins og Víkurfréttir greindu frá fyrir helgi hefur hópur sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ leitað til Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, alþingmanns, um að flytja aftur heim og taka að sér forystuhlutverk fyrir kjördæmið. Almenn spenna virðist vera meðal sjálfstæðismanna vegna hugsanlegs framboðs hennar en hún þótti t.a.m. sýna mikla forystuhæfileika þegar hún fór gegn oddvita vinstri grænna í Suðurkjördæmi, til varnar uppbygginarstarfseminni á Vallarheiði í Reykjanesbæ. Eins yrði hún fyrsta konan til að leiða lista sjálfstæðismanna í Suðurkjördæminu ásamt því að klippa á þá leiðtogakrísu sem virðist vera uppi meðal sjálfstæðismanna í kjördæminu.


Góð þátttaka meðal Suðurnesjamanna í prófkjörinu
Nokkrir aðrir Suðurnesjamenn hafa þegar gefið kost á sér. Björk Guðjónsdóttir, alþingismaður, ætlar að sækjast eftir 2. sætinu, Guðbjörn Guðbjörnsson, stjórnsýslufræðingur býður sig fram í 3. sæti og Árni Árnason, blaðamaður og fyrrum formaður ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ sækist eftir 4. sætinu. Þá hafa Ingigerður Sæmundsdóttir, kennari úr Reykjanesbæ og Vilhjálmur Árnason, lögreglumaður úr Grindavík einnig gefið kost á sér. Heyrst hefur að fleiri séu með þingmanninn í maganum og Einar Bárðarson, umboðsmaður Íslands mun vera einn þeirra. Hann hefur síðustu daga verið að kanna grundvöll sinn fyrir því að bjóða sig fram.


(Fréttin hefur verið sett inn að nýju kl. 09:51 í nýrri færslu, þar sem fyrri útgáfa var skemmd)