Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Mun leiða til algjörs hruns“
Miðvikudagur 20. maí 2009 kl. 13:39

„Mun leiða til algjörs hruns“


Sjálfstæðismenn sátu undir harðri gagnrýni A-listans á bæjarstjórnarfundi í gær vegna ársreiknings bæjarins sem var til síðari umræðu.  Ársreikningurinn sýnir rúmlega 8 milljarða tap á rekstri bæjarins, þ.e. A og B hluta.

„Reykjanesbær stendur ekki undir rekstri og nemur tap bæjarsjóðs fyrir fjármagnsliði á árinu 2008, 18% af tekjum sjóðsins. Slíkt yfirskot í rekstrarútgjöldum mun fyrr en síðar leiða til algers hruns með ófyrirséðum afleiðingum fyrir íbúa sveitarfélagsins. Því miður reynist sjálfstæðismönnum erfitt að koma auga á það og kenna utanaðkomandi hlutum um eigið getuleysi. Fyrsta framfaraskrefið væri að viðurkenna misgjörðir sínar og vinna svo út frá því, en það virðist sjálfstæðismönnum algjörlega fyrirmunað,“ segir m.a. í bókun sem Guðbrandur Einarsson lagði fram fyrir hönd A-listans.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri, lagði í upphafi umræðunnar fram bókun fyrir hönd meirihlutans sem virðist í meginatriðum í sama dúr og greinargerð með ársreikningnum sem lagður var fram í þarsíðustu viku. Þar kemur fram að þessi neikvæða niðurstaða byggist á skráðu tapi vegna eignarhluta bæjarins í HS og öðrum hlutdeildarfélögum. Í öðru lagi vegna kostnaðarsamra framkvæmda í Helguvík. Þá vegur fjármagnskostnaður bæjarsjóðs þungt ásamt útgjöldum til verklegra framkvæmda í lok árs og aukinni fjárhagsaðstoð og húsaleigubótum til heimila.  Stærsti liðurinn er tap vegna HS upp á rúmlega 4 milljarða.

Í bókun A-listans segir að Sjálfstæðismenn hafi hingað til getað „reiknað sig yfir núllið“ eins það er orðað. „Reykjanesbær hefur mörg undanfarin ár notið hagstæðra kjara á fjármálamarkaði. Sterk króna, aðgangur að ódýru erlendu fjármagni og jákvæðar hlutdeildartekjur, hefur gert það að verkum að reikningar bæjarins hafa sýnt jákvæða niðurstöðu eftir reiknaða liði en nánast án undantekninga hefur bæjarsjóður verið rekinn með halla í stjórnartíð núverandi meirihluta. Nú er hins vegar svo komið, að ekki er lengur hægt að reikna sig yfir núllið eins og sjálfstæðismenn hafa gert undanfarin ár,“ segir í bókuninni.


Bókanir í heild sinni er hægt að nálgast á vef Reykjanesbæjar hér

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024