Mun aldrei sætta mig við að hafa ráðið Sigurjóni bana
Atburðirnir í Sandgerði á nýársnótt 1997. Lífsreynslusaga Sigurgeirs Bergssonar sem réð sambýlsimanni móður sinnar bana að morgni nýársdags 1997 var sögð í sjónvarpsþættinum Íslandi í dag í gærkvöldi. Þar var vitnað í viðtal við Sigurgeir í Tímariti Víkurfrétta. Viðtalið birtist hér í heild sinni.Sigurgeir Bergsson er 22 ára gamall Keflvíkingur sem afplánar nú 10 ára fangelsisdóm á Kvíabryggju fyrir að ráða stjúpföður sínum bana. Hinn hroðalegi atburður átti sér stað á nýársdagsmorgun, þann 1. janúar 1997. Sigurgeir hefur nú setið inni í rúm þrjú ár og féllst á að deila sögu sinni með Silju Dögg Gunnarsdóttur. Hann segir frá æskunni, ströngu uppeldi, hvað gerðist á nýársnótt 1997, tilfinningum sínum gagnvart stjúpa og ættingjum hans, lífinu í fangelsinu og hvernig hann lítur lífið í dag. Saga hans er sorgarsaga og oft hefur hann langað til að gefast upp. Einveran hefur veitt honum hugarró sem hann þekkti ekki utan múranna. Hann segist vera sáttur í fangelsinu og við dóminn sem hann hlaut en hann þráir frelsið og mest hlakkar hann til að eyða góðum stundum með móður sinni. Rótlaus og vinafárSigurgeir kynntist aldrei föður sínum en bjó með móður sinni og fósturföður, Gunna, til fimm ára aldurs í Keflavík. Hann segir að hann hafi þó alltaf verið mjög náinn móður sinni en það breyttist þegar hún kynntist tilvonandi stjúpföður Sigurgeirs, Eiríki. Þá var Sigurgeir 5 ára gamall. Eftir það hófst mikið rótleysi því litla fjölskyldan flutti oft á milli staða og Sigurgeir átti sífellt erfiðara með að tengjast fólki. „Ég kunni ekki vel við hann og hann kunni ekki vel við mig. Hann reyndi að ala mig upp á sinn hátt og var mun strangari en mamma. Ég fór að sýna mótþróa sem vatt síðan uppá sig. Á milli okkar mömmu myndaðist gjá sem dýpkaði eftir því sem árin liðu“, segir Sigurgeir.Gerði fyrstu sjálfsmorðstilraunina 11 ára gamallSigurgeir var óhamingjusamt barn og átti erfitt með að hemja skap sitt. Hann segist þó aldrei hafa skeytt skapi sínu á foreldrunum. Hann byrgði allt inni enda var ekki til siðs að tala um tilfinningamál á heimilinu. Sigurgeir var aðeins 11 ára gamall þegar hann reyndi að svipta sig lífi. Í kjölfarið var hann sendur í geðrannsókn og síðan í sveit en hann segir að sveitadvölin hafi gert sér gott. „Ég átti ekki mikið af vinum á þessum tíma og ef ég átti kunningja þá voru þeir miklu yngri en ég. Annars var ég ekki mikið í kringum önnur börn. Við vorum alltaf að flytja. Ég þurfti stöðugt að skipta um skóla og náði því aldrei að mynda nein tengsl. Ég var hættur að kunna að bera mig eftir vinum. Ég stundaði engar íþróttir og fór ekki á skólaböll og aðrar uppákomur í skólanum fyrstu 6-7 skólaárin.“Fékk ekki peninga fyrir skólaböllumSigurgeir gekk í Njarðvíkurskóla í 8.-10. bekk, fór að æfa körfubolta og eignaðist ágæta kunningja. „Ég öðlaðist örlítið sjálfstraust gagnvart fólki á meðan ég var í Njarðvíkurskóla. Ég var í uppreisn gagnvart foreldrum mínum og þeim fannst ekki rétt að gefa mér peninga fyrir skólaskemmtunum, segir Sigurgeir og bætir við að til að komast inn á böllin í Njarðvíkurskóla, þá hafi hann lagt það á sig tvö ár í röð að vinna átkeppnir innan skólans. „Verðlaunin voru frímiði á skólaböll í heilt ár, þannig að ég þurfti ekki lengur að sitja heima þegar hinir krakkarnir fóru á skólaskemmtanir. Mér fannst ég sæta frekar mikilli kúgun á heimilinu. Við Eiríkur voru aldrei sammála um neitt“, segir Sigurgeir og það er auðheyrt að æskuminningarnar vekja enga gleði í brjósti hans. Ég var dauðhræddurvið hannKúgun á heimilinu var ekki ímyndun Sigurgeirs því uppeldisaðferðir Eiríks fólust m.a. í því að loka drenginn inni í herbergi, meina vinum hans að koma inn að leika og Sigurgeir fékk aldrei að horfa á sjónvarpið með móður sinni og stjúpa, því Eiríkur sagði að hann talaði svo mikið. „Eiríkur drakk ekki, ég var bara hræddur við hann. Hann var stór og mikill maður og hafði mikinn sannfæringarkraft. Mamma var orðin kúguð líka. Ég myndi segja að árin 1988-89 hafi verið verstu árin mín varðandi innilokun, en þá var ég á aldrinum 11 til 12 ára. Á þeim tíma var ég í herbergisstraffi viku eftir viku. Ég fékk að fara í skólann en þegar ég kom heim var ég lokaður inní herbergi. Þegar þau voru ekki heima þá passaði ég mig á að skilja hlutina eftir í nákvæmlega sama horfi og þeir voru áður, til að þau myndu ekki vita hvað ég væri að gera á daginn. Þetta var orðinn vítahringur og ástandið versnaði stöðugt því vandamálin voru aldrei leyst.“Hætti í skólaÞegar skólaskyldu lauk flutti Sigurgeir til Grindavíkur og fór að vinna fyrir sér. Á sama tíma slitu móðir hans og Eiríkur samvistum. „Ég byrjaði að reykja og drekka og fór að umgangast eldra fólk. Eftir nokkra mánuði tók ég þá undarlegu ákvörðun að flytja til Eiríks, sem þá var búsettur í Bandaríkjunum. Ósættið á milli mín og Eiríks var minna en áður því hann var ekki lengur harðstjórinn á heimilinu. Mamma var þá byrjuð með Sigurjóni, sem nú er látinn“, segir Sigurgeir og lítur á myndina af Sigurjóni sem stendur við rúmið hans. „Sigurjón var mjög rólegur maður. Hann var búinn að vinna á sama vinnustað til fjölda ára. Mér leist bara ágætlega á hann.“ Vann og skemmtimér um helgarÞrátt fyrir að samband Sigurjóns og Sigurgeirs hafi verið ágætt þá segir Sigurgeir að þeir hafi aldrei talað saman um tilfinningamál. „Ég var búinn að koma mér upp grímu því ég vildi ekki sýna fólki hvernig mér leið. Ég vissi í raun ekki hver ég var. Í hvert skipti sem við fluttum breytti ég mér“, segir Sigurgeir. Hann bjó hjá móður sinni í nokkra mánuði og lífið gekk út á að vinna og skemmta sér um helgar. Sigurgeir viðurkennir að brennivínið hafi ekki farið vel í hann því hann var skapstór og lenti oft upp á kant við fólk. „Ég hugsaði ekki um framtíðina og sýndi algert tillitsleysi á heimilinu. Ég framkvæmdi það sem mér datt í hug og hafði engin tengsl við fjölskylduna“, segir Sigurgeir en að lokum gafst hann upp og ákvað að fara aftur til Bandaríkjanna til Eiríks.Á kafi í félagslífinuSigurgeir flutti til Bandaríkjanna í lok nóvember 1995 og fór að vinna. Hann gældi við að fá sér græna kortið en það gekk ekki upp þannig að hann kom aftur heim til Íslands. „Ferðin til Bandaríkjanna var bara flótti. Um leið og eitthvað kom upp á þá fór ég í burtu. Ég kunni ekki að takast á við vandamálin. Ég fór að vinna í Nesfisk þegar ég kom heim, fékk inni hjá vini mínum og leigði mér síðan herbergi“, segir Sigurgeir. Hann segir þetta hafa verið ágætan kafla í lífi sínu því hann hafi haft meira en nóg fyrir stafni, var virkur í björgunarsveitinni Ægi í Garði og stofnaði ásamt fleirum hljómsveitina Sveitó. „Allt þetta hélt mér uppteknum og ég var aldrei heima hjá mér. Ég fór m.a. til Flateyrar í uppbyggingarstarf eftir snjóflóðin og það var hellingur að gera í kringum hljómsveitina. Ég flutti síðan aftur heim til mömmu og Sigurjóns og bjó hjá þeim síðustu átta mánuði ársins 1996.“ Við Sigurjón rifumst aldreiNú víkur sögunni að hinum örlagaríka atburði, þegar Sigurgeir varð Sigurjóni að bana snemma á nýársdagsmorgun 1997. Sigurgeir er yfirvegaður þegar hann rifjar upp atburðinn enda er hann búinn að fara yfir hann í huganum daglegan síðan hann átti sér stað. Hann segist aldrei muni sætta sig það sem gerðist og sama hversu oft hann hugsi um það, þá skilur hann ekki hvers vegna hann gerði þetta. „Sigurjón var góður við fólk og æsti sig aldrei upp. Við Sigurjón rifumst aldrei. Ég iðrast þess hvern dag að hafa orðið honum að bana og ég myndi gefa mitt eigið líf ef ég gæti tekið allt til baka. Ég verð að horfast í augu við það sem ég gerði. Þetta var óviljaverk en það var enginn annar en ég sem tók líf hans“, segir Sigurgeir og bætir við að hann þrái fyrirgefningu ættingja Sigurjóns þó að hann skilji vel að þau líti sennilega á hann sem vondan mann. Venjulegur gamlársdagurSigurgeir var upptekinn á gamlársdag ásamt öðrum björgunarsveitarmönnum, við að setja upp brennuna í Garðinum. Hann fór heim í kvöldmat og aftur upp á brennusvæði. Þegar brennan var orðin ösku fór hann heim til mömmu sinnar og Sigurjóns. „Við skutum upp flugeldum, föðmuðumst og óskuðum hvoru öðru gleðilegs nýs árs. Ég fór síðan að hitta vini mína en við ætluðum að koma heim til Sigurjóns og mömmu síðar um kvöldið. Þegar við komum þangað voru þau farin út. Við strákarnir fórum þá á Vitann og reyndum að finna partý, en árangurslaust. Ég nennti þessu ekki lengur og ákvað að fara heim að sofa, en þá var klukkan rétt rúmlega tvö. Ég var sofnaður um þrjú leytið og vaknaði upp með andfælum þegar græjurnar voru settar í botn. Ég fór fram en mamma og Sigurjón voru eitthvað að þrasa. Ég fékk mér að borða og fór aftur inní herbergi en hún kom á eftir mér og hótaði að henda mér út. Við fórum að rífast og ég var alveg að gefast upp á þessu öllu saman“, segir Sigurgeir, kveikir sér í sígarettu og horfir hugsandi út um gluggann.Sigurjón reyndi að róa mig„Þegar við mamma vorum búin að rífast var ég orðinn agalega reiður. Ég var með byssusting uppá vegg hjá mér til skrauts. Ég tók hann úr slíðrinu og var að hugsa um að ljúka þessu fyrir fullt og allt“, segir Sigurgeir og bætir við að slíkar hugsanir hafi oft sótt á hann þegar hann var einn með sjálfum sér því þá gat hann ekki falið sig á bakvið neitt. „Þegar ég hugsaði um framtíðina, sá ég bara svart. Mér fannst lífið einskis virði. Ég sat á rúmstokknum og hugleiddi að svipta mig lífi, þá kom Sigurjón inn. Hann sá að ég var æstur og reyndi að róa mig niður. Hann sagði mér að vera ekki svona fljótur á mér og að mamma myndi vera orðin róleg á morgun. Ég æsti mig alltaf meira og meira. Ég sagði honum að láta mig vera og fara út úr herberginu. Ég stóð upp og þá sá hann að ég var með byssustinginn í hendinni. Hann brosti sakleysislega til mín og spurði hvað ég ætlaði að gera, hvort ég ætlaði að stinga hann. Við þessi orð slökknaði á mér. Ég sló til hans með vopninu og hann datt aftur fyrir sig. Hann stóð síðan aftur upp, horfði á mig með ólýsanlegum svip en sagði ekki neitt og gekk út úr herberginu.“Nú er öllu lokiðSigurgeir hringdi í Neyðarlínuna en segist hafa verið í miklu uppnámi og honum fannst hjálpin vera heila eilífð að berast. „Sigurjón lá á gólfinu og ég sagði mömmu að þrýsta á sárið til að reyna að stöðva blæðinguna. Ég stóð fyrir framan hana, benti á sjálfan mig og sagði: Þetta er þú búin að eyðileggja. Ég fór aftur inní herbergi, makaði mig allan út í blóði og ákvað að láta þetta líta sem verst út. Þá þyrfti ég ekki að hafa áhyggjur af neinu lengur. Ég yrði bara lokaður inni og þyrfti ekki að svipta mig lífi. Þetta var bara búið“, segir Sigurgeir.Gat ekki grátiðSigurjón var lýstur látinn skömmu eftir að sjúkraflutningamenn og lögregla komu á vettvang. Sigurgeir var handtekinn og fluttur í einangrun á lögreglustöðina í Keflavík. „Ég var allur stífur. Mér leið eins og mér væri drullukalt, allur uppspenntur og þurr. Ég gat ekki grátið. Á þessum tíma vissi ég ekki að hann væri látinn. Presturinn kom til mín seinnipart nýársdags og um leið og ég sá hann sprakk ég. Hann tilkynnti mér að Sigurjón væri dáinn og þá fór ég að hágráta. Þá var eins og af mér væri lyft þungu fargi“, segir Sigurgeir og bætir við að hann hafi ekki gert sér neina grein fyrir hvað væri í vændum. Hann hafði einu sinni komist í kast við lögin, en þá missti hann bílprófið í 6 mánuði fyrir að aka undir áhrifum áfengis. „Ég spurði lögfræðinginn hvenær ég fengi að fara heim. Hann sagði að ég fengi það sennilega ekki fyrr en búið væri að dæma í málinu. Þá brotnaði ég aftur saman.“ Sigurgeir var í einangrun í Keflavík í átta daga en hann hugsar með hlýhug til lögreglumannanna þar. „Þeir hugsuðu mjög vel um mig. Þeir töluðu við mig þegar ég þurfti að tala við einhvern og gerðu allt sem þeir gátu til að létta fyrir mér.“Í gæsluvarðhaldiHegningarhúsið við Skólavörðustíg var næsti viðkomustaður Sigurgeirs, en þar dvaldi hann í fimm mánuði. Þar segist hann fyrsta hafa farið að finna fyrir innilokun og þunglyndið helltist yfir hann. „Mér fannst tíminn standa í stað. Kvöldin voru verst. Þá var ég bara einn með sjálfum mér inní herbergi. Ég var ekki búinn að fá hlutina mína senda í fangelsið og það eina sem ég hafði voru fötin mín, sjampó, trélitir og teikniblokk. Ég var byrjaður að dunda mér við að rífa niður lök og búa mér til kaðal. Eitt kvöldið var ég búinn að binda kaðalinn og var að fara að stytta mér aldur. Þá ruddust fangaverðirnir inná mig og sáu hvað ég var að gera. Þetta gerðist 29. janúar 1997 en þá skrifaði ég í dagbókina: Ég er í helvíti, bless, bless. Þann 30. janúar skrifaði ég hins vegar í dagbókina: Í dag loksins, viðurkenni ég að ég eigi við vandamál að stríða“, segir Sigurgeir og blaðar í dagbókinni sinni.Sáttur við dóminnEftir þessa sjálfsmorðstilraun fékk Sigurgeir mikla aðstoð. Hann fékk að tala við prest og sálfræðing og var settur á róandi lyf og svefnlyf. „Ég og lyf eigum alls ekki saman. Ég vissi hvorki upp né niður og var í einni gufu. Ég tók því þá ákvörðun að hætta á lyfjunum án samráðs við lækni og fékk hrikaleg fráhvarseinkenni, svitaköst og hræðilegar martraðir nótt eftir nótt, en það lagaðist með tímanum.“ Sigurgeir var dæmdur í 10 ára fangelsi þann 28. maí 1997. Hann segist vera sáttur við dóminn en fljótlega eftir að hann féll var hann sendur á Litla-Hraun. Á Hrauninu varvont að veraDvölin á Hrauninu var slæm og Sigurgeir segir að mannleg samskipti á milli fanga og fangavarða tíðkist t.d. ekki. „Allir erfiðleikarnir eru lokaðir inní rammgerðu húsi en síðan býr skrattinn sjálfur innan veggja. Fíkniefnin flæða um fangelsið og þegar Stóra fíkniefnamálið kom upp þá held ég að það hafi verið auðveldast að komast yfir efni á Hrauninu. Það er ekki spurning hvort maður geti fengið fíkniefni þar heldur hversu mikið“, segir Sigurgeir. Skapofsinn kom honum fljótlega í klandur í fangelsinu og hann segir einn fangann hafa notað hausinn á honum fyrir boxpúða. „Ég sagði engum frá þessu, það gengur ekki í svona samfélagi. Maðurinn kom til mín viku síðar, brosti til mín og sagði að lífið væri bara svona. Ég tók þá ákvörðun eftir þetta, að besta vopnið mitt væri að þegja og hafa ekki skoðanir á neinu og vera sem mest út af fyrir mig.“ Sigurgeir viðurkennir að vanlíðanin hafi oft verið mikil í fangelsinu og oft hafi hann grátið sig í svefn á kvöldin. „Ég vildi ekki að mamma og kunningjarnir vissu hvernig mér liði því þá færu þau að hafa áhyggjur. Ég vissi að ég gæti gengið í gegnum þetta þó ég myndi kannski skemmast eitthvað á því“, segir Sigurgeir.Fékk að hafa plöntu í glugganumMóðir Sigurgeirs og fleiri, börðust lengi fyrir að fá hann fluttan á Kvíabryggju, vestur á Snæfellsnesi. Sigurgeir segir að honum líði ágætlega þar. Fangarnir reyna að gera staðinn sem heimilislegastan en nú afplána 12 fangar dóma sína þar. Föngunum gefst kostur á að stunda fjarnám og vinna við að beita, smíða bretti og fella net. „Þegar ég kom hingað mátti ég t.d. vera með plöntu í glugganum. Ég varð yfir mig hrifinn því á Hrauninu mátti ekki vera með neitt slíkt af öryggisástæðum. Það þarf svo lítið til að gleðja fanga og síðan ég fór í fangelsi hef ég lært að meta hluti á annan hátt“, segir Sigurgeir og bætir við að honum finnist fólk lifa allt of hratt og ekki kunna að njóta þess sem það hefur. „Ég held að fólk hafi það almennt ekki sálarlega gott, þó það hafi veraldlega hluti í kringum sig. Barnapían í dag er t.d. oftast tölva eða myndbandstæki. Fólk ætti að gefa sér tíma til að setjast niður og hugsa um sjálfan sig eða gera eitthvað með fjölskyldunni. Ég hef fengið góðan tíma til að rækta sjálfan mig og í dag hef ég öðlast frið.“Hlakkar til að fara í sundFlestir kunningjar Sigurgeirs eru nú að taka sín fyrstu skref í lífinu, koma sér fyrir og stofna fjölskyldur. Finnst þér þú vera að missa af einhverju? „Já, auðvitað þrái ég ást og væntumþykju, sem ég gerði ekki áður fyrr. Ég öfunda fólk ekki, nema fyrir það eitt að hafa frelsi. Veraldlegir hlutir bæta samt ekki upp hamingju. Heimsókn, símtal og bréf er það besta sem kemur fyrir mig í vistinni. Ég tala nú ekki um þegar ég fer að fá dagsleyfi. Það fyrsta sem ég ætla að gera þegar ég fæ dagsleyfi er að faðma mömmu og eyða góðum tíma með henni“, segir Sigurgeir og yfir andlit hans læðist bros. Smeykur við þjóðfélagiðSigurgeir segist þrá frelsið en viðurkennir jafnframt að hann hræðist það að vissu leyti. „Þegar þar að kemur ætla ég að gera allt sem í mínu valdi stendur til að halda mér fyrir ofan strauminn í þjóðfélaginu. Mér finnst þjóðfélagið orðið ómanneskjulegt og hraðinn allt of mikill. Nú er ég búinn að kynnast sjálfum mér og rónni og ég kann að meta allt miklu betur. Nú eru t.d. liðin tvö og hálft ár síðan ég fékk síðast sjálfsmorðshugleiðingu. Ég hef áhyggjur af að ég missi þessa tilfinningu en það sem hræðir mig mest er að ég hætti að kunna að meta frelsið“, segir Sigurgeir. Hann segist þó vera sannfærður um að honum takist að spjara sig úti í þjóðfélaginu, ef hann getur gengið í gegnum nokkurra ára fangavist. „Ég sakna ekki neins sem fylgdi frelsinu áður, því ég hafði það ekki gott áður en ég kom inn. Mér hefur í raun aldrei liðið eins vel og í dag. Þrátt fyrir að vera í fangelsi, þá er ég með allt annað í lífinu sem ég þarfnast.“