Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

MSS: Níu þjóðir sameinast í læsi
Miðvikudagur 27. nóvember 2013 kl. 09:14

MSS: Níu þjóðir sameinast í læsi

Í byrjun nóvember stóð Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum fyrir námskeiðinu „Coaching and counseling methods to language learning - TPR/ Total Physical Response“.
Þátttakendur komu frá 9 löndum: Íslandi, Spáni, Ítalíu, Póllandi, Finnlandi, Slóveníu, Lettlandi, Litháen og Rúmeníu. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru þau Einar Trausti Óskarsson kennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Maria Nowak- Szabat  kennslufræðingur frá Póllandi.

Yfirskrift námskeiðsins var LÆSI og var unnið með læsishugtakið í hinum víðasta skilningi. Á námskeiðinu, sem einkum var ætlað tungumálakennurum í fullorðinsfræðslu, var áhersla lögð á lifandi kennsluaðferðir, og  skapandi  kennsluhætti. TPR kennsluaðferðin hefur vakið athygli og skapað fólki með námsörðugleika bætta möguleika til náms. Kennarar útfærðu kennsluaðferðir TPR á sinn hátt og skiptust á tilraunakennslu innan hópsins. Rík áhersla var lögð á talað mál og tjáningu og henta þessar kennsluaðferðir ekki síst erlendum nemendum sem eru  t.d. að læra íslensku. Almenn ánægja var meðal þátttakenda, sem gáfu námskeiðinu og leiðbeinendum þess afbragðs góða umsögn í námskeiðsmati í lokin að sögn Sveindísar Valdimarsdóttur verkefnastjóra MSS.  
 
Að auki var lögð áhersla á að kynna land og þjóð fyrir þátttakendum og var farið með hópinn um Reykjanesið. Að sögn Guðjónínu Sæmundsdóttur forstöðumanns MSS var mikil hrifning á svæðinu okkar en allur vestanverður skaginn var vel skoðaður enda ótrúleg náttúrufegurð á þessu litla svæði. Það er skemmtilegt að segja frá því að þátttakendur voru einstaklega hrifnir af matnum sem þau fengu en þau elduðu íslenska kjötsúpu með okkur og komu svo einu sinni í heimahús í mat en svo sá Örn Garðarsson að mestu leyti um matinn. Að þeirra sögn kom þeim mest á óvart hvað maturinn var góður á Íslandi.

Þetta var einkar vel heppnað námskeið og vonumst við til að fleiri svona námskeið verði haldin, segir í tilkynningu frá MSS.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024