Móttökurnar framar væntingum og 470 sóttu um starf í versluninni
– ný verslun Rúmfatalagersins opnuð á Fitjum í Reykjanesbæ
„Móttökurnar eru framar okkar bestu væntingum,“ segir Willy Nielsen, verslunarstjóri Rúmfatalagersins í Reykjanesbæ, í samtali við Víkurfréttir. Strax við opnun verslunarinnar síðasta föstudag myndaðist röð út á götu og vegna samkomutakmarkana þurfti að telja viðskiptavini inn í búðina allan daginn.
Willy segir að það hafi verið brjálað að gera alla helgina og þegar Víkurfréttir kíktu í nýja Rúmfata-lagerinn síðdegis á mánudag var verslunin full af fólki. Rúmfatalagerinn bauð tilboð og afslætti í tilefni opnunarinnar og þá voru fjölmargir viðskiptavinir leystir út með gjafakortum.
Verslun Rúmfatalagersins á Fitjum í Reykjanesbæ er sjöunda verslun Rúmfatalagersins og sú fyrsta á Íslandi sem byggir á nýju útliti frá JYSK þar sem notast er við ný hillukerfi og uppstillingar. Willy segir að útlitið sé eins og í dönskum verslunum JYSK. „Verslunin er hönnuð með þægindi og notagildi fyrir viðskiptavini í huga og það gleður okkur að verslunin að Fitjum sé sú fyrsta í þessu nýja útliti,“ segir í tilkynningu frá Rúmfatalagernum.
„Það var mikil spenna fyrir opnun búðarinnar og fólk var greinilega búið að bíða lengi eftir því að fá Rúmfatalagirnn til bæjarins. Allar vinsælustu vörur Rúmfatalagersins fást hér hjá okkur,“ segir Willy.
Í versluninn er úrval af húsgögnum en enginn húsgagnalager er hins vegar á Fitjum, heldur koma þær vörur með flutningabílum úr Reykjavík og eru afgreiddar frítt á flutningamiðstöð Flytjanda í Reykjanesbæ. Þangað getur fólk sótt húsgögnin eða fengið sendar heim með sendibíl gegn gjaldi.
Rúmfatalagerinn í Reykjanesbæ er með sex starfsmenn í fastri vinnu og svo eru helgarstarfsmenn. Mikil ásókn var í að fá starf hjá Rúmfatalagernum í Reykjanesbæ en 470 manns sóttu um starf í verslunni á Fitjum. „Það eru margir sem hafa áhuga á að vinna hjá Rúmfatalagernum sem er ánægjulegt,“ sagði Willy Nielsen, verslunarstjóri Rúmfatalagersins í Reykjanesbæ að endingu.