Mótstaða við byggingu fjölbýlishúss við Vallargötu
Áætlanir um byggingu fjölbýlishúss við Vallargötu í Reykjanesbæ mættu mótstöðu á kynningarfundi sem haldinn var fyrir íbúa í nágrenninu í gær.
Húsið á að rísa á lóðinni handan við bílastæðið aftan við Sparisjóðshúsið á Tjarnargötu innan reitsins sem afmarkast af Vallargötu, Klapparstíg Kirkjuvegi og Aðalgötu. Það verður þrjár til fimm hæðir og 10,5 til 16,5 m á hæð og inniheldur allt að 63 íbúðum með bílastæðahús í kjallara og verður um að ræða íbúðir sem seldar verða á almennum markaði. Tvö hús sem nú standa myndu víkja fyrir framkvæmdunum, en það eru húsin að Vallargötu 7 og 9.
Ekki er hægt að segja annað en að íbúar sem mættu á fundinn hafi látið óánægju sína í ljós því þeir töldu að með fyrirhugaðri byggingu myndu sum hús lenda í skugganum af henni og aðrir höfðu áhyggjur af skertu útsýni með tilkomu þess. Aukinheldur var rætt um áhrif á heildarmynd hverfisins og aukna umferð með fjölgun íbúa.
Fulltrúar Kaldalóns ehf., sem hefur veg og vanda að verkinu, voru fyrir svörum og sögðu undirbúning að verkefninu hafa staðið yfir frá árinu 2005. Hann lagði áherslu á að þetta væru áætlanir sem enn væru ekki farnar í auglýsingaferli og íbúar í nágrenninu gætu sent athugasemdir til bæjarins.
Þeir bentu á að þó hægt væri að gera aðfinnslur við bygginguna væru einnig miklir kostir sem fylgdu henni, eins og glæsilegur garður á milli nýja hússins og fjölbýlishússins að Kirkjuvegi 10-14.
Stærð hússins væri í samræmi við margar nýlegar byggingar í nágrenninu og miðaði vel að þeirri stefnu að þétta eigi byggð miðsvæðis í bænum.
Áætlanirnar fara í auglýsingu hjá skipulagsyfirvöldum innan tíðar og eftir það gefst íbúum færi á að gera formlegar athugasemdir við þær.
Nánar um málið í næsta blaði Víkurfrétta…