Mótmæltu vegatollum og einkavæðingu framkvæmda í vegakerfinu
Sósíalistar í Suðurkjördæmi mættu og mótmæltu vegatollum og einkavæðingu framkvæmda í vegakerfinu við Fitjar í Njarðvík síðasta föstudag. „Flokkurinn mótmælir því harðlega að ríkisstjórnin, að frumkvæði Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra, hafi látið breyta lögum um samgöngumál til þess að opna fyrir vegatolla. Sósíalistar hafna því líka algjörlega að einkaaðilar verði látnir fjármagna framkvæmdir í samgöngum. Nú þegar hafa nýja Hornarfjarðarbrúin og nýja Ölfusárbrúin verið eyrnamerktar sem einkafjárfestingar í gegnum svokallað PPP samvinnu einkaaðila og ríkisins. Nú á að innheimta vegatolla á Ölfusárbrúna (lesist skattur á sunnlendinga) til að fjármagna gróða einkaaðilanna. Það er augljóst að það er mun ódýrara fyrir ríkið að taka lán á þeim sérstaklega góðu lánakjörum sem því standa til boða í dag en að leita til einkaaðila. Til viðbótar gera fjárfestingaraðilar kröfu um a.m.k. 20% arðsemiskröfu á fjárfestingu sína til að borga sjálfum sér arð. Einkaþoturnar kaupa sig ekki sjálfar. Það er því augljóst að verið er að svindla á almenningi í gegnum PPP fjármögnun. Miklu einfaldara og ódýrara að fjármagna slíkar framkvæmdir í gegnum skattakerfið,“ segir í tilkynningu frá Sósíalistum í Suðurkjördæmi.
„Vegatollar eru skattar á landsbyggðina,“ segir Guðmundur Auðunsson, oddviti Sósíalistaflokksins í Suðurkjördæmi, jafnframt í sömu tilkynningu. „Við höfnum algjörlega að fólk þurfi að borga hærri skatta til að sækja nauðsynlega þjónustu til höfuðborgarinnar. Við höfnum því líka algjörlega að nauðsynlegar samgönguframkvæmdir séu fjármagnaðar af einkaaðilum. Slíkt er miklu dýrara fyrir almenning,“ segir Guðmundur.