Mótmælir harðlega einhliða ákvörðun heilbrigðisráðherra
Ríkið getur ekki ætlast til að íbúar í Vogum, Garði og Reykjanesbæ taki á sig byrðar vegna samninga sem ríkið telur sig ekki geta staðið við, segir bæjarráð Voga.
Bæjarráð hvetur heilbrigðisráðherra til að skoða heilbrigðismál á Suðurnesjum heildstætt í samráði við heimamenn og leggja fram tillögur sem miða að því að leiðrétta það misræmi sem er milli Suðurnesja og annarra svæða hvað heilbrigðisþjónustu varðar.
Bókun þessa efnis var samþykkt á fundi bæjarráðs Voga nú í vikunni. Bókunin er annars svohljóðandi:
„Bæjarráð tekur undir bókun stjórnar Brunavarna Suðurnesja og mótmælir harðlega einhliða ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins um niðurskurð á framlögum til sjúkraflutninga. Heilbrigðisráðuneytið hefur nú þegar lokað heilsugæsluseli í Vogum og ætlast nú til að íbúar greiði niður sjúkraflutninga enn meira en áður.
Ríkið getur ekki ætlast til að íbúar í Vogum, Garði og Reykjanesbæ taki á sig byrðar vegna samninga sem ríkið telur sig ekki geta staðið við. Þetta segir bæjarráð
Bæjarráð hvetur heilbrigðisráðherra til að skoða heilbrigðismál á Suðurnesjum heildstætt í samráði við heimamenn og leggja fram tillögur sem miða að því að leiðrétta það misræmi sem er milli Suðurnesja og annarra svæða hvað heilbrigðisþjónustu varðar. Bæjarráð kallar nú eftir því liðsinni sem þingmenn kjördæmisins lofuðu á fundi í Álfagerði í Vogum þann 29. október.“