Mótmæla hugmyndum um vegatolla á Reykjanesbraut
Bæjarráð Grindavíkurbæjar mótmælir hugmyndum um vegatolla á Reykjanesbraut. Auknar álögur á íbúa og atvinnulíf á Suðurnesjum í formi vegatolla munu hafa verulega neikvæð áhrif á búsetu, atvinnustig, fasteignaverð og fyrirtæki á Suðurnesjum. Aukinn kostnaður við ferðir milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins mun leiða til þess að íbúar og fyrirtæki á Suðurnesjum sæki í minna mæli atvinnu, þjónustu og verkefni á höfuðborgarsvæðinu. Það mun leiða til aukins atvinnuleysis á svæðinu og lækkandi fasteignaverðs.
Vakin er athygli á því að ríkisstjórnin hefur sjálf skilgreint Suðurnes sem hluti af atvinnusvæði höfuðborgarsvæðisins í tillögu að Sóknaráætlun 20/20. Jafnframt er ljóst er að aukinn ferðakostnaður mun hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu, en stór hluti ferðamanna á Suðurnesjum fer dagsferðir um svæðið frá höfuðborgarsvæðinu, með viðkomu í Bláa lóninu.
Bæjarráð Grindavíkurbæjar bendir jafnframt á að íbúar á Suðurnesjum munu ekki eiga um aðra leið að velja á leið sinni á höfuðborgarsvæðið og eru því nauðbeygðir til að greiða vegatollinn. Vegatollur á Reykjanesbraut er því ekki samanburðarhæfur við vegatoll í Hvalfjarðargöngum eða í væntanlegum Vaðlaheiðargöngum, þar sem vegfarendur geta valið að fara Hvalfjörð eða Víkurskarð og sloppið við tollinn.
Bæjarráð Grindavíkurbæjar hvetur því samgöngunefnd Alþingis og samgönguráðherra til að endurskoða hugmyndir um vegatolla á Reykjanesbraut.