Mótmæla harðlega skerðingu
Bæjarráð Grindavíkurbæjar mótmælir harðlega þeim áformum fjármálaráðherra og ríkisstjórnar að skerða framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um nærri 3,3 milljarða á árunum 2020 og 2021.
„Einhliða ákvörðun ríkisvaldsins af þessu tagi er í andstöðu við það formlega samráðsferli ríkis og sveitarfélaga sem þróast hefur á undanförnum árum og fela áform þessi í sér algeran trúnaðarbrest gagnvart sveitarfélögum í landinu. Ekki getur með nokkrum hætti talist eðlilegt að áhersla á að bæta afkomu ríkissjóðs skili sér í skerðingu á tekjum sveitarfélaganna, sem standa undir mjög stórum hluta almannaþjónustu í landinu.
Þess er krafist að áform um skerðingu tekna Jöfnunarsjóðs verði afturkölluð þegar í stað og hvatt til eðlilegs samráðs ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um þetta mál sem og öll önnur sem varða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga,“ segir í afgreiðslu bæjarráðs Grindavíkur.