Móta sameiginlega stefnu í málefnum aldraðra
Stefnt er að því að sveitarfélögin Garður, Sandgerði og Vogar vinni að sameiginlegri stefnumótun í málefnum aldraðra. Hjúkrunarheimili, þjónusta við aldraða almennt og málefni aldraðra hafa verið mikið til umræðu bæði innan sveitarfélaganna, á sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga á Suðurnesjum, hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og ekki síst innan Félags eldri borgara og Öldrunarráðs Suðurnesja, að sögn Sigrúnar Árnadóttur, bæjarstjóra í Sandgerði.
Öldrunarráðið hefur kallað eftir afstöðu sveitarfélaganna til ýmissa mála og segir Sigrún það ýta á að fyrir liggi skýrar áherslur og stefna í málum sem snúa að eldri íbúum á Suðurnesjum. Breytingar hafa orðið á starfsemi Dvalarheimila aldraðra á Suðurnesjum sem hefur verið sameiginlegt verkefni sveitarfélaganna þriggja og Reykjanesbæjar. Starfsemi Garðvangs hefur verið hætt og húsið selt og verið er að taka samstarfið í heild sinni til endurskoðunar.
„Það hafa auðvitað legið fyrir í Sandgerði og Garði ákveðnar áherslur í þjónustu við aldraða og sýn á framtíðina og í Vogunum liggur fyrir stefna í málefnum aldraðra. Nú viljum við einfaldlega skýra þessar áherslur, horfa til framtíðar og móta stefnu sem unnið verður markvisst eftir,“ segir Sigrún. Ástæðan fyrir því að sveitarfélögin fara sameignlega í það að móta stefnu í málefnum aldraðra er sú að þau standa sameiginlega að félagsþjónustu við sína íbúa.
Málið hefur verið samþykkt af bæjarráðum Sandgerðis og Garðs og tveir fulltrúar frá hvoru sveitarfélagi verið skipaðir í vinnuhóp um málið. Afgreiðslu málsins var frestað hjá bæjarráði Voga 11. janúar síðastliðinn. Áætlað er að hópurinn skili tillögum fyrir lok apríl næstkomandi.