Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 25. febrúar 1999 kl. 17:38

MORGUNSUND GEFUR GULL Í MUND

Um síðustu áramót var opnunartími Sundmiðstöðvarinnar við Sunnubraut færður fram um 15 mínútur, til kl. 06.45 alla virka daga. Með þessari breytingu er verið að koma til móts við þarfir þeirra fjölmörgu sem vilja byrja daginn á því að fá sér hressandi sundsprett, áður en þeir taka til við dagleg störf. Ekki þarf að fjölyrða um hollustu sundíþróttarinnar. Fjölmargir bæjarbúar á öllum aldri hafa um árabil stundað laugarnar svo til uppá hvern einasta dag og með þessari breytingu ættu enn fleiri að eiga þess kost. Að synda 500 metra tekur 15-20 mínútur fyrir þá sem ekki vilja fara of geyst. Með stuttri viðdvöl í heitu pottunum, þar sem helstu mál dagsins eru rædd, og sturtubaði á undan og á eftir ættu 50 mínútur að duga. Það þýðir að þeir sem hefja vinnu kl. 08.00 eiga ekki í vandræðum með að mæta á réttum tíma. Sundmiðstöðin er opin alla daga ársins nema um stórhátíðar. Árskort kostar kr. 18.000.- sem gera kr. 50.- pr. dag ef farið er í sund alla daga. Frá opnun Sundmiðstöðvarinnar árið 1990 hafa tæplega 900 þúsund manns sótt laugina eða um 112 þúsund gestir á ári. Með sama áframhaldi má því reikna með að á síðari hluta þessa árs muni milljónasti gesturinn koma í Sundmiðstöðina því segja má að morgunsund gefi gull í mund.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024