Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Mörg þúsund tunnur af tjöru grafnar ofan Iðavalla
    Tjaran lekur úr jarðvegi við Flugvelli ofan Iðavalla í Keflavík. VF-mynd: Hilmar Bragi
  • Mörg þúsund tunnur af tjöru grafnar ofan Iðavalla
Föstudagur 26. maí 2017 kl. 10:58

Mörg þúsund tunnur af tjöru grafnar ofan Iðavalla

— Svæðið „löðrandi í tjöru og ógeði“ á tímum setuliðsins

„Við hlið íþróttasvæðis á Iðavöllum eru grafnar mörg þúsund tunnur af tjöru“. Þetta kemur fram í skýrslu sem stýrihópur um Staðardagskrá 21 í Reykjanesbæ lét gera árið 2001. Gamlir sorphaugar og svæði þar sem vænta má einhverrar mengunar eru á nokkrum stöðum í Reykjanesbæ. Mest af þessu er vegna starfsemi setuliðsins úr seinni heimsstyrjöldinni, forvera varnarliðsins. Í skýrslunni frá 2001 eru taldir upp nokkrir staðir í Reykjanesbæ og nágrenni þar sem annað hvort var urðaður úrgangur eða unnið með mengandi efni og talið að þau séu í jarðvegi.
 
Eldri bæjarbúar muna vel eftir tunnum sem innihéldu tjöru og stóðu undir gafli á bröggum sem stóðu á svæðinu ofan Iðavalla, þar sem nú er unnið að vegagerð fyrir Flugvelli. Staðurinn var leiksvæði barna í eina tíð og í samtali við Víkurfréttir hafa menn lýst svæðinu sem „löðrandi í tjöru og ógeði“. Börn hafi komið heim til sín svört af tjöru og oft hafi verið erfitt að þrífa húð og fatnað.
 
Svæðið sem um ræðir hafi í eina tíð verið á helgunarsvæði Keflavíkurflugvallar og ekki gert ráð fyrir byggð þar. Í seinni tíð hafi reglum verið breytt og svæðið nú komið inn á skipulag sem byggingasvæði. 
 
Eins og Víkurfréttir greindu frá í síðustu viku hefur mikið magn af járni og öðru rusli komið upp við gatnagerð á svæðinu. Þá er jarðvegur á afmörkuðu svæði einnig mengaður af tjöru og má sjá tjöruna leka úr jarðveginum. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja stöðvaði framkvæmdir við Flugvelli og sl. föstudag voru tekin jarðvegssýni á staðnum til að átta sig á hvaða mengun væri á svæðinu.
 
Bandaríska setuliðið var með þó nokkra starfsemi á þessum slóðum í síðari heimsstyrjöldinni. Þarna voru braggar og birgðageymslur og vitað að ýmislegt væri urðað, þó svo svæðið hafi ekki verið skipulagt sem ruslahaugar eða urðunarstaður. Skammt frá, á lóð við Iðavelli, voru smurstöðvar á vegum setuliðsins. Fullyrt er að undir núverandi fyllingum á lóðinni megi finna olíuafganga og leysiefni.
 
Gert var ráð fyrir að allt að 100 tonn af járni kæmi upp við uppgröft á svæðinu en tjörumengunin kom á óvart.


Svæðið þar sem mengunarinnar hefur orðið vart. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024