Monica fékk drátt hjá Þorsteini
Í ljós kom eftir að fiskibáturinn Monica GK var dregin að bryggju í Garði í kvöld eftir að hafa strandað í Gauksstaðavörinni neðan við björgunarstöðina í Garði, að stýri bátsins var laskað og því lét Monica ekki að stjórn. Var brugðið á það ráð að fá björgunarskipið Þorstein frá Sandgerði til að taka Monicu í drátt. Var henni komið til Reykjanesbæjar fyrir miðnætti, þar sem báturinn verður tekinn á land og lagaður eftir svaðilför dagsins.
Mynd: Monica og Þorsteinn liggja saman í höfninni í Garði. Skömmu síðar fékk Monica drátt hjá Þorsteini – alla leið til Reykjanesbæjar. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson