Mokveiða síld skammt frá landi í Keflavík
Fjögur síldveiðiskip hafa verið í mokveiði af síld skammt frá landi í Keflavík í allan morgun. Þrjú skipana eru útbúin til veiða, en fjórða skipið dælir síld frá öðru skipi.
Skipin sem verið hafa á veiðum á Stakksfirðinum, skammt undan landi í Keflavík og Njarðvík frá því í birtinu í morgun eru Súlan EA, Birtingur NK og Álsey VE. Þá hefur Margrét EA fengið síld úr nótinni hjá Súlunni, en Margrét er ekki útbúin til veiða. Hins vegar hefur hún kælitanka sem fara vel með hráefnið.
Fleiri síldveiðiskip munu vera á leiðinni á svæðið en skipin hafa verið að kasta á torfur alveg uppi í fjöru ef svo má að orði komast. Súlan var næst landi um 50-100 metra.
Fjöldi fólks fylgist með veiðunum frá Vatnsnesinu. Það er líka óvanaleg sjón að sjá þessi stóru skip að veiðum svona stutt frá landi. Þá hafa hvalir verið að sjást á sundi innan um skipin.
Meðfylgjandi myndir tóku Hilmar Bragi Bárðarson og Bárður Sindri, sonur hans, nú áðan.
Súlan með nótina á síðunni og Margrét dælir síld frá Súlunni yfir í kælitanka um borð í Margréti.
Súlan búin að kasta og Birtingur að kasta nótinni á stóra síldartorfu skemmt undan landi í Keflavík.
Súlan var um 50-100 metra frá klettunum á Vatnsnesinu þegar hún var hvað næst landi.
Fjöldi hermanna á leið heim frá Írak eru nú staddir í Reykjanesbæ. Þeir setja svip á bæjarlífið og voru margir hverjir að fylgjast með síldveiðum í morgun og vildu fá síld að borða. Hvar fáum við íslenskan mat, spurðu þeir fólk sem fylgdist með veiðunum í landi. Þeim var bent á að það gæti verið erfitt að fá síld á veitingahúsi en bent á að fá sér sviðakjamma og hákarl, til að kynnast íslenskum hefðum.