Mokafli í Grindavík
Um 16 þúsund tonn hafa komið á land í Grindavíkurhöfn í janúar. Þar af eru um 10 þúsund tonn af loðnu og 3500 af síld. Á sama tíma í fyrra var var heildaraflinn aðeins 6700 tonn og loðnuveiðin sérlega dræm. Þá veiddust ekki nema 1300 tonn af loðnu og 2600 tonn af síld. Aflahæstu loðnubátarnir nú eru Hoffellið og Oddeyrin með 2900 tonn, Sunnutindur með 3000 tonn og Þorsteinn er búin að landa 3100 tonnum. Að sögn Sverris Vilbergssonar eru bæði Þorsteinn og Hoffellið úti eins og er en Sunnutindur og Oddeyrin eru inni því þeir búast við að loðnan sé að ganga uppá grunnið og eru að skipta um nætur. „Stóru línubátarnir eru búnir að vera nánast með mokafla í hverjum túr og koma með eins og ílátin leyfa eftir 3-5 lagnir. Við erum þokkalega sáttir og vonumst til að aflinn haldi áfram að vera svona góður“, sagði Sverrir.