Möguleikarnir á fjölbreyttri starfsemi við flugvöllinn eru margir
– segir Marta Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kadeco
„Þetta er gríðarlegt landflæmi,“ segir Marta Jónsdóttir framkvæmdarstjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar/Kadeco. Svæðið sem Kadeco hefur til umráða er um 60 ferkílómetrar að stærð. „Núna getum við farið að einbeita okkur að næsta fasa í þessu verkefni, sem er að þróa landið við flugstöðina en við förum með umráð þess lands fyrir hönd ríkisins. Þetta er eitt verðmætasta landsvæðið í eigu ríkissjóðs.“
Fyrr í sumar var skrifað undir viljayfirlýsingu um þróun flugborgar við Keflavíkurflugvöll. Undir viljayfirlýsinguna skrifuðu fjármálaráðherra, fulltrúar frá Isavia, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Stefnan sem Kadeco vinnur eftir grundvallast á hugmyndafræði Dr. John Kasarda sem kallast Aerotropolis eða flugborg. Hugmyndafræðin byggir á því „að skapa megi mikil verðmæti úr landi við flugvöll“. Í flugborginni má segja að flugvöllurinn sé segullinn sem laðar að mismunandi starfsemi, flugtengda sem ótengda. Sem dæmi má nefna gagnaver, hótel, hátækniiðnað, menntastofnanir, dreifingarmiðstöðvar og fríverslunarsvæði, sem hagnast af nálægð við góðar flugtengingar og starfsemi sem tengist flugvellinum með einum eða öðrum hætti.
„Næst á dagskrá er að byggja upp viðskiptagarð sem byggir á hugmyndafræði Dr. John Kasarda um flugborgina eða Aerwotropolis. Kadeco hefur unnið eftir þessari hugmyndafræði frá árinu 2008. Þannig að við höfum unnið eftir henni um 11 ára skeið og höfum þegar hafið innleiðingu hennar hér á svæðinu.“ Á landsvæðinu verður byggður upp viðskiptagarður í samstarfi við Isavia og sveitarfélögin í kring, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. „Sveitarfélögin fara með skipulagsvaldið, Isavia leggur inn mikla þekkingu og reynslu á þróun flugtengdrar starfsemi og ríkið býður afnot af landinu til þróunar. Hlutverk Kadeco er að vera farartæki þessara hagsmunaaðila og félagið kemur fram fyrir hönd allra þessara aðila í verkefninu.“ Marta segir að samstarfið milli Isavia, sveitarfélaganna og ríkisins gangi vel og að allir stefni í sömu átt. Kadeco komi þó ekki með neinum hætti að rekstri fyrirtækja eða íbúðaeigu á svæðinu. „Við erum landþróunarfélag. Okkar verkefni snýr að því að meta tækifæri og styrkleika svæðisins, laða áhugasama aðila að og bjóða upp á land á markaðskjörum til að undirbúa jarðveginn fyrir það sem koma skal.“ Þó svæðið sé ein verðmætasta landeign í eigu ríkissjóðs þá verða ákveðnar forsendur að liggja að baki. „Þarna er flugvöllur sem þarf að hafa nægt landrými til að vaxa og dafna og hann er forsenda verkefnisins.“
Gagnaver fjárfesta milljörðum króna
Uppbygging flugborgarinnar reiðir sig að öllu leyti á því að Keflavíkurflugvöllur haldi áfram að vaxa og dafna. „Okkar verkefni er að gera umhverfið í kringum flugvöllinn aðlaðandi, bæði viðskiptalega og eiginlega. Við viljum að menn kjósi að staðsetja sín fyrirtæki og flugtengda starfsemi á þessum stað.“ Marta segir mörg tækifæri í boði við Keflavíkurflugvöll fyrir fjölbreytta starfsemi. „Gagnaverin á Ásbrú eru einn hluti af þessari uppbyggingu,“ en slík starfsemi þarf á greiðum flugleiðum að halda. Gagnaverin Verne Global og þörungaverksmiðja Algalíf eru með starfsemi á Ásbrú að sögn Mörtu, en þau fyrirtæki eru skýr dæmi um ákjósanlega starfsemi á svæðinu.
Verne Global og Algalíf hafa til samans þegar fjárfest fyrir marga milljarða króna á svæðinu. „Fleiri fyrirtæki af þessum skala, sem og hótelkeðjur, dreifingaraðilar og hátæknifyrirtæki munu kjósa að staðsetja sig við Keflavíkurflugvöll ef lagt er af stað í þetta risavaxna verkefni á réttum forsendum ,“ segir Marta.
Frá undirritun samkomulagsins um þróunflugborgar. Fulltrúar Isavia, ríkisins, Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar munduðu pennana.