Mögnuð lífsreynslusaga í Víkurfréttum vikunnar
Víkurfréttir eru komnar í prentun en blaðið verður komið á alla helstu dreifingarstaði um hádegisbil á morgun. Rafræn útgáfa blaðsins er hins vegar orðin aðgengileg á vf.is.
Kristbjörg Kamilla Sigtryggsdóttir lenti í alvarlegu slysi um miðjan ágústmánuð þar sem hún hlaut opið beinbrot á læri og hún missti um helminginn af blóði líkamans. Hún segir lesendum Víkurfrétta sögu sína í blaði vikunnar.
Ásgeir Magnús Hjálmarsson er að gera upp traktora í Garðinum. Hörður Gíslason kíkti í skúrinn til Ásgeirs og tók saman pistil um dráttarvélarnar.
Þrátt fyrir að nú sé keppnisbann í íþróttum vegna kórónuveirunnar, þá er samt myndarleg íþróttaumfjöllun í Víkufréttum. Meðal annars er rætt við Aron Friðrik Georgsson sem stundar kraftlyftingar. Einnig kynnum við okkur frisbígolf í Reykjanesbæ og segjum frá Pálma Rafni sem eltir atvinnumannadrauminn hjá Úlfunum.
Fríða Dís Guðmundsdóttir er að gera góða hluti í tónlistinni. Við segjum frá því nýjasta frá henni og þá valdi hún sínar fimm uppáhaldsplötur.
Við kíktum í Stapaskóla í síðustu viku og skoðuðum skólann. Í blaðinu eru fjölmargar myndir úr þeirri heimsókn.
Við spjöllum við tvo mikla aðdáendur Harry Potter í blaði vikunnar. Þau viðtöl verða einnig ítarlegri í Suðurnesjamagasíni vikunnar á fimmtudagskvöld.
Í blaði vikunnar eru einnig fjölmargar fréttir frá Suðurnesjum og fastir liðir eins og aflafréttir, lokaorð og fleira.