Móðurmálskennslu á pólsku hætt
Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa ákveðið að leggja niður móðurmálskennslu á pólsku í grunnskólum bæjarins. Málið kom til umræðu á síðasta fundi bæjarstjórnar þar sem fulltrúar A-listans gagnrýndu þessa ákvörðun. Formaður Fræðsluráðs segir enga lagalega skyldu hvíla á bæjarfélaginu til að halda úti þessari kennslu og hún sé lögð niður í sparnaðarskyni.
Ríflega 900 Pólverjar voru búsettir í Reykjanesbæ um síðustu áramót og hafa börnin notið móðurmálskennslu á pólsku í skólanum. Sveindís Valdimarsdóttir, bæjarfulltrúi A-lista, spurði hvort lagalega væri heimilt að fella þessa kennslu niður.
Guðbrandur Einarsson, A-lista, lýsti sig mótfallinn þessari ákvörðun og spurði hvaða rök lægju að baki. Guðbrandur benti á að hluti þessara barna ætti hugsanlega eftir að flytja aftur til heimalands síns, án þess að þeirra móðurmáli hefði verið viðhaldið. Þau hefði því ekki þann grunn sem þau annars hefðu fengið í heimalandi sínu. „Telja menn rétt að veita börnun ekki móðurmálskennslu? Ég held að það standist ekki,“ sagði Guðbrandur.
Garðar Vilhjálmsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðismanna og formaður Fræðsluráðs, sagði ekki í gildi sérstök lög sem leggðu þær skyldur á herðar bæjarfélagsins að sjá erlendum börnum fyrir kennslu í þeirra móðurmáli. Ef svo væri þyrfti bæjarfélagið að halda úti móðurmálskennslu á yfir 30 mismunandi tungumálum. Slík væri óframkvæmanlegt vegna mikils kostnaðar.
Þá mætti líka spyrja hvort ekki væri verið að mismuna hópum ef það ætti einungis að veita pólskum börnum móðurmálskennslu en öðrum ekki. „Mikilvægast af öllu er að við kennum þeim íslensku,“ sagði Garðar og taldi móðurmálskennsluna vera á ábyrgð foreldranna.