Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Mjög óþægilegt“
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 2. nóvember 2023 kl. 06:03

„Mjög óþægilegt“

Rannveig Jónína Guðmundsdóttir er Grindavíkurmær og ein þeirra sem finnst skjálftarnir vera óþægilegir. „Ég segi ekki að ég sé hrædd við þetta en mér þykir þetta vera mjög óþægilegt. Mér finnst vont að hafa ekki neina stjórn á aðstæðum, þegar jarðskálfti ríður yfir hefur maður nákvæmlega enga stjórn á aðstæðum. Þegar fyrsta skjálftahrynan dundi yfir bjuggum við á öðrum stað í Grindavík, í Hvassahrauni og það hús er ofan á klöpp en núverandi húsnæði okkar í Vesturhópinu er á púða, við finnum miklu minna fyrir þessu núna en taugakerfið er bara greinilega ekki alveg búið að jafna sig eftir þessa fyrstu hrynu fyrir rúmum tveimur árum.

Svo erum við með hund núna, Kolbeinn greyið skelfur og tirtar þegar jarðskjálftarnir ganga yfir, neitar að fara út til að gera þarfir sínar og maður reynir að taka jákvæða sálfræði á hann með misgóðum árangri. Ég er ekki beint hrædd við að það fari að gjósa nálægt okkur, mér finnst fréttaflutningurinn vera í svolitlum æsifréttagír, við eigum góða vísindamenn sem fylgjast vel með gangi mála. Ef það myndi byrja gjósa nær Grindavík, erum við með ótal útgönguleiða, svo ég hef ekki beint áhyggjur af því. Sem móðir finnst mér bara verst að vita ekki hvar börnin mín eru ef til eldgoss kemur. Ef það gerist á skólatíma er ég örugg því ég er sjálf kennari og yngri strákurinn minn er í þeim skóla og sá eldri í FS. Ef þeir væru hins vegar á æfingu eða úti að leika sér, yrði mér órótt. Við eigum bara að taka tillit til allra, allar tilfinningar eiga rétt á sér, sama hvort fólk hræðist jarðskálftana ekki neitt eða sé logandi hrætt,“ sagði Rannveig.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024