Mjaldrarnir lenda á Keflavíkurflugvelli í dag
Mjaldrarnir tveir frá Kína eru væntanlegir eftir hádegið í dag á Keflavíkurflugvöll. Mjaldrarnir sem nefnast Litla grá og Litla hvít eiga að baki langt ferðalag frá dýragarðinum Shang Feng Ocean World í Shanghai. Sérútbúnir flutningabílar munu ferja þá frá flugvellinum um Landeyjahöfn til Vestmannaeyja.
Mjaldrarnir eru fluttir hingað með flutningavél frá Cargolux en verkefnið á langan aðdraganda. Rúm þrjú ár eru síðan erindi vegna þessa innflutnings barst Matvælastofnun. Á þeim tíma hafa skilyrði til innflutnings verið mótuð m.t.t. heilbrigðis og velferðar dýranna annars vegar og smithættu hins vegar. Var þetta gert í samráði við innlenda og erlenda sérfræðinga.
Innflutningsskilyrði miða m.a. að því að lágmarka smithættu sem fylgir hvölunum og á undanförnum vikum hafa þeir undirgengist ítarlegar sýnatökur, læknisskoðanir auk meðhöndlunar gegn sníkjudýrum. Nú tekur við einangrun þar sem fylgst verður með heilsufari þeirra og atferli með það að markmiði að aðlögun þeirra að nýjum heimkynnum verði fyrst og fremst á forsendum bættrar velferðar.
Í Eyjum verða hvalirnir settir í einangrun í sérsmíðaðri landlaug þar sem þeir munu dvelja í a.m.k. 4 vikur. Þegar aðlögun þeirra er lokið verða þeir fluttir á afgirtan griðastað í Klettsvík. Hvalirnir voru fangaðir við Rússland fyrir um 10 árum síðan og fluttir í dýragarðinn í Kína en í Vestmannaeyjum munu þeir búa við betri aðstæður sem eru mun líkari náttúrulegum heimkynnum þeirra.