Missti afl og nauðlenti vegna eldsneytisskorts
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur gefið út lokaskýrslu vegna flugslyss TF-KFB á golfvellinum á Vatnsleysuströnd þann 29. júní 2014.
Flugvélin var í eigu Flugakademíu Keilis og var af gerðinni Diamond DA-20. Flugvélin var í kennsluflugi þegar atvikið átti sér stað. Um borð var flugnemi ásamt flugkennara.
Flogið var um Selfoss og snertilendingar framkvæmdar á flugvellinum við Sandskeið. Á leiðinni tilbaka, yfir Kúagerði á Reykjanesi varð vart við gangtruflanir hreyfils flugvélarinnar og stöðvaðist hann í kjölfarið. Flugkennarinn tók við stjórn flugvélarinnar og nauðlenti henni á golfvellinum á Vatnsleysuströnd, þar sem hún hafnaði á hvolfi utan golfbrautar.
Rannsókn á vettvangi leiddi í ljós að ekkert eldsneyti var í eldsneytisgeymi flugvélarinnar á slysstað og hafi eldsneytisskorturinn leitt til að vélin missti afl á flugi. Fyrir flugtak töldu flugneminn og flugkennarinn að nægilega mikið eldsneyti væri fyrir flugferðina.
Nánar má lesa um skýrsluna á vef Rannsóknarnefndar samgönguslysa