Minnkuð framlög ógna öryggi íbúa Suðurnesja
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum lýsir áhyggjum yfir þeim alvarlegu afleiðingum sem niðurskurður til heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum sem boðaður er í framlögðu fjárlagafrumvarpi getur haft á þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem og rekstur hjúkrunarheimila á svæðinu. Hið mikla atvinnuleysi á Suðurnesjum kallar á aukna heilbrigðisþjónustu og því ætti frekar að bæta í framlögin en að draga úr þeim. Þá segir að minnkuð fjárframlög til sjúkraflutninga á Suðurnesjum ógni öryggi íbúa svæðisins.
„Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Stapa í Reykjanesbæ, 7.- 8. október 2011 varar við þeim niðurskurði til heilbrigðisþjónustu og sjúkraflutninga á Suðurnesjum sem boðaður er í framlögðu fjárlagafrumvarpi.
Aðalfundurinn lýsir áhyggjum yfir þeim alvarlegu afleiðingum sem niðurskurðurinn getur haft á þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem og rekstur hjúkrunarheimila á svæðinu. Hið mikla atvinnuleysi á Suðurnesjum kallar á aukna heilbrigðisþjónustu og því ætti frekar að bæta í framlögin en að draga úr þeim.
Minnkuð fjárframlög til sjúkraflutninga á Suðurnesjum ógna öryggi íbúa svæðisins. Það er í mótsögn við þá stefnu stjórnvalda að neyða Suðurnesjamenn til þess að nýta heilbrigðisþjónustu í Reykjavík í auknum mæli um leið og dregið er úr framlögum til sjúkraflutninga.
Aðalfundurinn skorar því á stjórnvöld að draga boðaðar niðurskurðartillögur til baka og tryggja sæmandi heilbrigðisþjónustu við Suðurnesjamenn“.