Minnkandi virkni og lægri gosórói
Í myndum sem teknar voru í morgun í drónaflugi Almannavarna sést að virkni í gígnum fer minnkandi. Hraunrennsli frá gígnum er ekki sjáanlegt á yfirborði en getur verið í lokuðum rásum frá honum. Þó er áfram rennsli í þeim hrauntungum sem fóru yfir varnargarð norðan Sýlingarfells í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Mynd úr vefmyndavél Almannavarna á Sýlingarfelli sýnir þær þrjár hrauntungur sem renna yfir garðinn og vélar sem vinna að því að hemja hraunrennslið. Mest virkni er í hrauntungunni lengst til vesturs sem hefur færst áfram um nokkra metra og þykknað á síðustu klukkustundum. Gosórói fer einnig minnkandi og sést það vel á jarðskjálftamæli Veðurstofunnar í Grindavík eins og meðfylgjandi graf sýnir.
Minnkandi virkni í gígnum og lækkun í gosóróa bendir til þess að þessu eldgosi gæti lokið á næstunni en þó er óvissa um nákvæmlega hvenær. GPS mælingar sýna enn landris á Svartsengissvæðinu. Það er vísbending um að þrýstingur í kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi haldi áfram að byggjast upp, þótt hraði landrissins sé minni en áður.
Hrauntungurnar sem renna yfir varnargarð norðan Sýlingarfells og vinna við að hemja hraunrennslið. Ljósmynd: Almannavarnir
Órómælingar á jarðskjálftamæli VÍ í Grindavík frá því að eldgosið hófst þann 29. Maí til 21. Júní. Þær sýna að gosóróin hefur minnkað síðustu daga.