Minnisvarði um Jón forseta afhjúpaður
Minnivarði um strand togarans Jóns forseta var í gær afhjúpaður á Stafnesi.
Jón forseti RE 108 markaði tímamót í íslenskri útgerðarsögu en hann var fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga og kom til landins þann 23. janúar 1907.
Að morgni 28. febrúar 1928 strandaði Jón forseti við Stafnes. Á þeim tíma voru engin tæki til björgunarstarfa og engin vegur né sími var á Stafnesi. Bátar voru sendir frá Sandgerði með olíu til að hella í sjóinn og reyna þannig að lægja öldur.
Áhöfninni tókst að láta flot reka að landi sem varð til þess að hægt var að draga litla skektu að skipinu og þannig tókst að bjarga níu mönnum.
Þegar ekki var lengur hægt að nota skektuna voru þrír menn eftir á lífi um borð í togaranum. Ákváðu tveir þeirra að fara úr sjóstökkum og stígvélum og fara í sjóinn á stórri öldu sem bar þá langa leið að landi. Annar þeirra komst lifandi til lands en það var Frímann Helgason. Hann var þá 18 ára og varð síðar kunnur íþróttamaður.
Strand Jóns forseta var mikið áfall fyrir íslensku þjóðina. Fimmtán menn drukknuðu í sjóslysinu. Forsetinn hafði verið flaggskip íslenskra togara um árabil.
Slysavarnafélag Íslands var nýstofnað á þessum tíma og setti kraft í að stofna slysavarnadeildir um landið. Sú fyrsta var stofnuð í júní 1928 í Sandgerði. Hún hlaut nafnið Sigurvon.
----
VFmynd/elg - Höskuldur Frímannsson, sonur síðasta mannsins sem bjargaðist af Jóni Forseta, afhjúpaði minnisvarðann og naut til þess aðstoðar Reynis Sveinssonar.