Minningarsjóður Ölla gaf milljón til kirkjunnar
Ómetanlegur stuðningur
Minningarsjóður Ölla gaf Hjálparstarfi kirkjunnar eina milljón króna til að styrkja börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna. Upphæðin safnaðist að stórum hluta í áheitasöfnun fyrir sjóðinn í tengslum við Reykjavíkurmaraþonið 2015. Áður hefur sjóðurinn styrkt Fjölskylduhjálp Íslands og Velferðarsjóð Suðurnesja um sömu upphæð. Sjóðurinn hefur einnig veitt styrki beint til barna.
Minningarsjóður Ölla var stofnaður haustið 2013 í kringum frumsýningu á heimildamyndinni um Örlyg Aron Sturluson, einn allra efnilegasta körfuboltamann sem Ísland hefur átt. Ölli lék með meistaraliði Njarðvíkur og A-landsliði Íslands og var valinn fyrstur í lið í fyrsta Stjörnuleik Körfuknattleikssambands Íslands. Ölli lést af slysförum þann 16. janúar árið 2000, daginn eftir Stjörnuleikinn, aðeins 18 ára gamall. Vinur Ölla og samherji í Njarðvík á sínum tíma, Logi Gunnarsson körfuboltamaður, afhenti peningagjöfina í miðstöð Hjálparstarfs kirkjunnar að Háaleitisbraut í Reykjavík. Mynd frá afhendingunni er í viðhengi.
Hjálparstarf kirkjunnar hefur að markmiði að draga úr hættunni á félagslegri einangrun fólks vegna fátæktar. Auk inneignarkorta í matvöruverslanir fyrir efnalitlar fjölskyldur er boðið upp á ráðgjöf og sjálfstyrkingar- og færninámskeið. Hjálparstarfið leggur sérstaka áherslu á stuðning við barnafjölskyldur svo börnin geti tekið virkan þátt í samfélaginu.
„Það er ómetanlegt að fá þennan stuðning. Hann gjörbreytir stöðunni fyrir börn sem án hans gætu ekki tekið þátt í íþróttastarfi með jafnöldrum sínum. Í fyrra fengu foreldrar hátt í 200 barna styrk til að mæta útgjöldum vegna íþróttaiðkunar, tónlistarnáms og tómstundastarfs barna og unglinga og við reiknum með svipuðum fjölda umsókna í ár,“ sagði Kristín Ólafsdóttir, upplýsingafulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar, við móttöku styrkjarins.
Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins taka við styrkumsóknum vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna og unglinga á miðvikudögum frá kl. 12 – 16 frá og með 10. ágúst næstkomandi. Skrifstofa Hjálparstarfsins er að Háaleitisbraut 66, Reykjavík.
Forsvarsmenn Minningarsjóðs Ölla vilja minna hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu 2016 að þeir geta hlaupið fyrir sjóðinn með því að skrá sig á hlaupastyrkur.is. Búið er að stofna hlaupahóp á Facebook sem telur rúmlega 200 manns en vonast er til þess að stór hluti þess fólks muni hlaupa fyrir málefnið.
Sjóðurinn tekur jafnframt á móti frjálsum framlögum en reikningsnúmer sjóðsins er 0322-26-021585, kt. 461113-1090.
Minningarsjóðurinn á Facebook:https://www.facebook.com/minningarsjodurolla
Hlaupahópurinn á Facebook:https://www.facebook.com/groups/1381669902093168/?fref=ts
Hjálparstarf kirkunnar: www.help.is; https://www.facebook.com/hjalparstarf.kirkjunnar/